Framkvæmdir við legsteinaskála hafa legið niðri um hríð, meðan ágreiningur var um byggingarleyfi fyrir húsið. Ljósm. úr safni.

Nýtt byggingarleyfi gefið út fyrir legsteinaskála

Sveitarstjórn Borgarbyggðar staðfesti á fundi sínum í liðinni viku bókun umhverfis,- skipulags- og landbúnaðarnefndar og samþykkti að byggingarfulltrúa verði falið að afgreiða byggingarleyfisumsókn um legsteinaskála í Húsafelli í samræmi við fyrirliggjandi gögn. Í byrjun desember á síðasta ári kvað úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála upp úrskurð í kærumálum sem snertu deiliskipulag fyrir Húsafell II og veitingu byggingarleyfis fyrir listaverkahús og pakkhús á deiliskipulögðu svæði. Málið var því tekið upp að nýju á vettvangi Borgarbyggðar. Fyrirhuguð framkvæmd var í lok febrúar kynnt fyrir nágrönnum sem hagsmuna eiga að gæta. Í fundargerð nefndarinnar kemur fram að af þeim fimmtán aðilum sem nefndin mat sem svo að ættu hagsmuni í málinu, og sem fengu grenndarkynningu senda, gerðu fjórtán ekki athugasemd við að hið kynnta byggingarleyfi verði veitt. Einn aðili gerði athugasemdir við grenndarkynningu og var erindi hans þar um lagt fram á fundinum ásamt svarbréfi. Nefndin áréttar að aðeins er verið að afgreiða umsókn um byggingarleyfi fyrir umræddan legsteinaskála en ekki önnur mannvirki eða framkvæmdir á lóð umsækjanda.

Líkar þetta

Fleiri fréttir