Kaupa hús Bylgjunnar undir makrílfrystingu

Breiðavík ehf, Bjartsýnn ehf. og Nesver ehf festu kaup á húsnæðinu við Bankastræti 1 í Ólafsvík þar sem Fiskiðjan Bylgja var áður til húsa. Festu fyrirtækin kaup á húsnæðinu til þess að tryggja sér aðstöðu til frystingar á makríl. Hafði Fiskiðjan Bylgja séð um frystingu á makríl fyrir þessi fyrirtæki í nokkur ár áður en hún hætti starfsemi og leigðu fyrirtækin þetta sama húsnæði undir frystinguna síðasta sumar.

Síðastliðin tvö ár hafa fyrrgreind fyrirtæki veitt um 1100 tonn sem skiptast þannig niður á báta sem þau gera út. Árið 2017 veiddi Brynja SH274 tonn, Tryggvi Eðvarðs SH 183 tonn og Júlli Páls SH 110 tonn. Árið 2018 veiddi Júlli Páls SH 197 tonn, Brynja SH 170 tonn og Tryggvi Eðvarðs SH 159 tonn. Það er þó líklegt að ef frumvarp sjávarútvegsráðherra um kvótasetningu makríls verður að veruleika mun smábátum sem möguleika hafa á að stunda makrílveiðar fækka enn frekar, að mati smábátaeigenda. En miðað er við tíu ára veiðireynslu í frumvarpinu og er talið að það henti helst stærri útgerðum sem mokveiddu makríl fyrstu árin eftir hrun. Fari frumvarp þetta óbreytt í gegnum þingið eru þessir bátar fyrirtækjanna að missa helming af aflareynslu sinni í ljósi þess að smábátar eru aðeins með veiðireynslu um helming af umræddu tímabili.

Líkar þetta

Fleiri fréttir