Vilja að þungunarrof verði að hámarki við lok 20. viku

Átta starfsmenn Heilbrigðisstofnunar Vesturlands í Borgarnesi sendu í dag frá sér harðorða ályktun til þingmanna, heilbrigðisráðherra og velferðarnefndar Alþingis vegna frumvarps til laga um þungunarrof sem nú er til umfjöllunar á Alþingi. Þar segir: „Við undirrituð starfsfólk HVE í Borgarnesi finnum okkur knúin að álykta um framvarp til laga um þungunarrof sem nú er til umræðu á Alþingi.“ Tekið er fram að ályktunin er ekki gerð í nafni HVE.

„Teljum við að það, að kona hafi óskertan rétt til að fá þungun rofna fram að lokum 22. viku þungunar, sé allt of langt gengið og vegið sé að rétti hins ófædda barns. Teljum við einnig það vera afturför að kona eigi einungis kost á fræðslu og ráðgjöf læknis, hjúkrunarfræðings, ljósmóður og félagsráðgjafa, eftir því sem þörf krefur, en að það sé ekki skylt eins og var í eldri lögum. Teljum við ótækt að kalla það þungunarrof, verði að framkalla fæðingu því lífi móður sé stefnt í hættu eftir lok 22. viku. Við krefjumst þess að miðað verði við að hámarki við lok 20. viku þungunar.“ Þá segir í ályktuninni að vonast sé til að Alþingi gefi sér rýmri tíma til að fjalla um frumvarpið og fresti afgreiðslu þess.

Líkar þetta

Fleiri fréttir