Keppendur, starfsfólk og bæjarstjóri í lok móts. Ljósm. Magnús Ingi Bæringsson.

Góður keppnisandi og gleði á bocciamóti í Stykkishólmi

Boccia mót var haldið í Stykkishólmi þriðjudaginn 9. apríl þar sem saman voru komin lið frá félagsmiðstöðinni X-inu, lið frá Aftanskini, sem er skipað heldriborgunum, og boccialið Snæfells sem er hópur fólks með skerta starfsgetu. „Hugmyndin að mótinu kviknaði á bocciaopnun í félagsmiðstöðinni X-inu sem er fyrir unga fólkið í 8.-10. bekk. Við vissum að það voru tveir hópar í bænum að æfa Boccia, eldri borgarar í félaginu Aftanskini, og hópur á vegum Snæfells. Markmiðið var að draga saman þessa ólíku hópa og úr varð þessi frábæra skemmtun. Dómarar og ritarar mótsins komu úr röðum Aftanskins og frá X-inu. Í Hólminum eru litlir hópar sem hittast hver í sínu horni og tilvalið að hræra aðeins í pottinum og vera með viðburð þar sem koma saman hópar sem hittast annars mjög lítið. Góður keppnisandi og gleði einkenndi mótið,“ segir Magnús Ingi Bæringsson, æskulýðs- og tómstundarfulltrúi Stykkishólmsbæjar í samtali við Skessuhorn.

Hver hópur mætti til leiks með tvö lið og samanlögð stig hópsins skáru úr um sigurvegarana sem var unga fólkið úr X-inu, með samtals 50 stig. Í öðru sæti var Aftanskin með 37 stig og Snæfell með 33 stig. Jakob Björgvin Jakobsson, bæjarstjóri Stykkishólmsbæjar, afhenti verðlaunin, farandbikar og svo bikar til eignar. Þá fengu allir þátttakendur páskaegg í þátttökuverðlaun. „Þetta var virkilega skemmtilegt mót sem verður vonandi haldið um ókomna tíð í kringum páskana. Nú hafa liðin eitt ár til að æfa sig fyrir næsta mót,“ segir Magnús.

Líkar þetta

Fleiri fréttir