null

Víðtækt samráð um heilsueflingu aldraðra

Þjóðin eldist og samkvæmt tölum Hagstofunnar mun fólki eldra en 80 ára fjölga um tæplega 6.000 eða 46% til ársins 2030. „Hætta á sjúkdómum eykst með hækkandi aldri og þar vega þungt ýmsir sjúkdómar tengdir lífsstíl. Margþættur ávinningur felst í því að efla heilsu aldraðra og gera þeim kleift að búa sem lengst á eigin heimili. Með því er unnt að auka lífsgæði fólks, stemma stigu við auknum kostnaði heilbrigðiskerfisins og stuðla að meiri gæðum þjónustunnar í samræmi við þarfir einstaklinganna,“ segir í tilkynningu frá ráðuneyti heilbrigðismála.

Undanfarin ár hefur Embætti landlæknis stuðlað að heilsueflingu landsmanna, m.a. með samstarfssamningum við sveitarfélög um heilsueflandi samfélag og útgáfu lýðheilsuvísa. „Heilsuefling er mikilvæg á öllum aldursskeiðum en ör fjölgun í elstu aldurshópunum kallar á að aldraðir fái sérstaka athygli. Skapa þarf aðstæður sem ýta sérstaklega undir heilsueflingu og markvissar forvarnir meðal aldraðra. Einnig þarf að stórefla félagslega aðstoð við aldraða í heimahúsum og sömuleiðis heimahjúkrun. Fjölgun dagdvalarrýma er líka mikilvægur liður í þessu. Með þessu móti ætti að vera hægt að draga verulega úr þörf meðal aldraðra fyrir búsetu á hjúkrunarheimili.“

Á vegum ráðuneytisins hefur verið ákveðið að efna til samstarfsverkefnis með áherslu á heilsueflingu aldraðra og markvissari þjónustu við þá sem þurfa stuðning til að geta búið á eigin heimili vegna heilsubrests. Ríkisstjórnin samþykkti tillögu heilbrigðisráðherra þessa efnis á fundi sínum síðastliðinn föstudag. Undirbúningur verkefnisins verður á hendi ráðuneyta heilbrigðis, forsætis, félags, og fjármála, Sambands íslenskra sveitarfélaga og Embættis landlæknis og mun starfshópur þessara aðila skila tillögum um fyrirkomulag þess til heilbrigðisráðherra í júní næstkomandi.

Líkar þetta

Fleiri fréttir