Svipmynd frá æfingunni á Mánabraut á Akranesi á mánudagsmorgun. Sérsveitarmaður með bláa æfingabyssu. Ljósm. Lögreglan á Vesturlandi.

Lögregla og sérsveit æfðu viðbrögð við vopnamáli

Lögreglan á Vesturlandi hélt sameiginlega æfingu með sérsveit ríkislöreglustjóra á Akranesi í morgun. Æfð voru viðbrögð við vopnamáli og tóku lögreglumenn á Akranesi þátt sem fyrstu viðbragðsaðilar. Skrifstofur Sementsverksmiðjunnar voru fengnar að láni hjá ríki og bæ til æfingarinnar og gegndu þær hlutverki fjölbýlishúss. „Æfingin var sett þannig upp að öryggisverðir tilkynna um vopnaðan mann í fjölbýli. Lögreglan á Akranesi mætir á staðinn, ræðir við öryggisverðina sem tjá lögreglu að í húsinu sé vopnaður maður og mögulega með fólk í gíslingu. Síðan kemur vopnaður maður út úr húsinu, hrópar að lögreglu og hefur uppi kröfur áður en hann fer inn í húsið aftur. Þá kallar lögregla eftir aðstoð sérsveitar sem kemur á vettvang og umsátur hefst,“ útskýrir Ásmundur Kr. Ásmundsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá Lögreglunni á Vesturlandi, í samtali við Skessuhorn. Auk þess segir hann að sérfræðingar í samtalstækni frá ríkislögreglustjóra hafi tekið þátt í æfingunni. Fóru þeir inn í húsið og ræddu við hinn vopnaða. Á æfingunni var staðan hins vegar metin þannig að fara þyrft inn í húsið, yfirbuga manninn og frelsa gíslana, sem sérsveitin og gerði.

Engin hætta á ferðum

Ásmundur vill árétta að aðeins hafi verið um æfingu að ræða og að engin hætta hafi verið á ferðum. Öll vopn sem lögreglumenn sáust bera voru æfingavopn, bláar byssur sem skjóta litakúlum. Mótaðilinn og gíslarnir voru leiknir af nemum í lögreglufræði sem eru þessa dagana í starfsnámi hjá Mennta- og starfsþróunarsetri lögreglunnar. Ásmundur segir vel hafa tekist til á æfingunni. „Þetta gekk allt saman vel og æfingamarkmiðin náðust,“ segir Ásmundur. „Tilkynningin barst um kl. 5:00 að morgni og æfingunni var lokið um kl. 10:00. Um 20 sérveitarmenn tóku þátt, fjórir lögreglumenn á Akranesi á báðum vöktunum tóku þátt sem fyrstu viðbragðsaðilar og um 15 nemar hjá MSL í fylgd kennara,“ segir hann. „Við tilkynntum ekki um æfinguna fyrirfram en auðvitað sá nokkuð af fólki til okkar. Ég vil því ítreka að engin alvöru skotvopn voru notuð við æfinguna, aðeins æfingavopn og engin hætta var nokkurn tímann á ferðum,“ segir Ásmundur að endingu.

 

Líkar þetta

Fleiri fréttir