Sinueldur við Litlu-Brekku á Mýrum

Síðdegis í dag var Slökkvilið Borgarbyggðar kallað út vegna elds í gróðurlendi skammt frá Litlu-Brekku á Mýrum. Auk mannskapar frá slökkviliðinu á Bifröst, Reykholti, Hvanneyri og Borgarnesi var kallað eftir aðstoð Slökkviliðs Akraness og Hvalfjarðarsveitar. Þá var þyrla Landhelgisgæslunnar einnig kölluð út til að flytja vatn í stórpoka yfir svæðið, en aðstoð hennar var afturkölluð þegar ljóst þótti að næðist að slökkva eldinn af landi. Að sögn Bjarna Kristins Þorsteinssonar slökkviliðsstjóra var strekkings vindur á svæðinu sem tafði slökkvistarf nokkuð. Sagði hann að um tíma hefði verið óttast að eldurinn næði að breiða úr sér alveg vestur að Langá og niðurundir ós hjá Leirulæk, en tekist hefði að slökkva í tíma áður en til þess kom. Bjarni sagðist ekki treysta sér til að slá á flatarmál þess lands sem brann í dag en sagði það þónokkuð svæði. Þá er óljóst um eldsupptök. Bjarni áminnir fólk um að fara varlega við þessar aðstæður, en jörð er víða þurr og mikill eldsmatur í sinu og gróðri.

Meðfylgjandi myndir tók Iðunn Silja Svansdóttir fyrir Skessuhorn á vettvangi brunans síðdegis í dag.

Líkar þetta

Fleiri fréttir