F.v. Gestur Pétursson forstjóri Elkem, Linda Pálsdóttir sveitarstjóri í Hvalfjarðarsveit, Sævar Freyr Þráinsson bæjarstjóri Akraness, Guðjón Steindórsson framkvæmdastjóri Þróunarfélags Grundartanga og Þorsteinn Ingi Sigfússon forstjóri Nýsköpunarmiðstöðvar eftir að búið var að skrifa undir samning um Nýsköpunarsetur á Grundartanga. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir ráðherra vottaði samninginn. Ljósm. arg.

Nýsköpunarsetur á Grundartanga

Á ráðstefnu sem haldin var í Tónbergi á Akranesi 23. mars síðastliðinn voru undirritaðir samningar um Nýsköpunarsetur á Grundartanga. Að setrinu standa Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Elkem Ísland, Akraneskaupstaður, Hvalfjarðarsveit og Þróunarfélagið Grundartanga. Að Þróunarfélagi Grundartanga standa Akraneskaupstaður, Borgarbyggð, Faxaflóahafnir sf., Hvalfjarðarsveit, Reykjavíkurborg og Skorradalshreppur, en félagið var stofnað árið 2016 í þeim tilgangi að móta framtíðarsýn og stefnu fyrir Grundartangasvæðið.

„Tilgangur með stofnun og rekstri Nýsköpunarsetursins á Grundartanga er að styðja við nýsköpun í atvinnulífi. Nýsköpunarsetrinu er ætlað að auðvelda frumkvöðlum með hugmyndir að nýsköpun að raungera viðskiptahugmyndir sínar og hraða ferlinu frá því að hugmynd verður til og þar til rekstur hefst. Hugmyndir skulu tengdar nýsköpun á sviði orku eða umhverfismála og hafa það að markmiði að leiða til verðmætasköpunar fyrir núverandi eða framtíðarstarfsemi á Grundartanga þjóðinni til heilla,“ segir í samningnum. Þá segir að Elkem Ísland muni leggja til húsnæði undir starfsemi Nýsköpunarsetursins. Þrír einstaklingar skulu skipa stjórn Nýsköpunarsetursins, einn fulltrúi frá Nýsköpunarmiðstöð Íslands, einn fulltrúi frá Elkem Ísland og einn fulltrúi sem er tilnefndur sameiginlega af Akraneskaupstað, Hvalfjarðarsveit og Þróunarfélagi Grundartanga.

Líkar þetta

Fleiri fréttir