Svipmynd af aðalfundi SSV. Ljósm. kgk.

Fleygur rekinn í samskipti ríkis og sveitarfélaga

Árlegur aðalfundur Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi og ýmissa stofnana sem heyra undir sveitarfélögin í landshlutanum, var haldinn á Hótel Hamri í Borgarnesi í síðustu viku. Á aðalfundi SSV var samþykkt harðorð ályktun vegna áforma ríkisstjórnarinnar um skerðingu tekna Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Mótmælt er fyrirhugaðri skerðingu eins og hún birtist í Fjármálaáætlun fyrir árin 2020-2024. „Það liggur ljóst fyrir að ef til þessarar skerðingar kemur þá verður tekjutap sveitarfélaga á Vesturlandi verulegt, en í samantekt frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga er áætlað að hún verði rúmar 335 m.kr. fyrir árin 2020 – 2021. Verði af fyrirhuguðum áformum mun það án efa leiða til skerðingar á þjónustu við íbúa, draga úr viðhaldi og framkvæmdum á vegum sveitarfélaganna og gera þeim erfiðara fyrir varðandi lækkun skulda.“

Þá segir í ályktun SSV að um árabil hafi verið markvisst unnið að því að bæta samskipti ríkis og sveitarfélaga og tryggja að það einkennist af samráði og trausti eins og vera á um samskipti tveggja jafn rétthárra stjórnvalda. „Það skýtur því skökku við þegar ríkisvaldið ætlar sér einhliða að veikja tekjustofna sveitarfélaga og því er um alvarlegt inngrip að ræða í fjárhagslegt sjálfstæði sveitarfélaga og sjálfsákvörðunarrétt þeirra. Við það verður ekki unað. Aðalfundur Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi hvetur því ríkisvaldið til þess að endurskoða vinnubrögð sín og að á ný verði tekin upp eðlileg vinnubrögð í samskiptum ríkis og sveitarfélaga. Afar mikilvægt er að nú þegar hefjist viðræður aðila um breytingar á fjármálaáætlun og þær leiði til þess að áform um skerðingu á framlögum til Jöfnunarsjóðs verði dregin til baka.“

 

Líkar þetta

Fleiri fréttir