Gestastofa Snæfellsness hlýtur styrk

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra hefur úthlutað styrkjum að upphæð 71,5 milljónum króna til sjö verkefna á vegum sex landshlutasamtaka sveitarfélaga. Styrkjunum er úthlutað til sértækra verkefna á sóknaráætlunarsvæðum fyrir árið 2019 í takti við stefnumótandi byggðaáætlun. Alls bárust 19 umsóknir um styrki að fjárhæð rúmar 278 m.kr. fyrir árið 2019. Þriggja manna valnefnd fór yfir umsóknir og gerði tillögur til ráðherra. Byggðastofnun annast umsýslu verkefnastyrkjanna. Eitt verkefni á Vesturlandi hlaut styrk sem rennur til Gestastofu Snæfellsness.

Það eru Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi sem fá styrkinn til að efla Gestastofu Snæfellsness. Í tilkynningu segir að Gestastofan gegni lykilhlutverki við eflingu ferðaþjónustu á sunnanverðu Snæfellsnesi. Þar verður miðlað upplýsingum og þekkingu um svæðið til ferðamanna. Styrkurinn nýtist til endurbóta á húsnæði og lagfæringa á umhverfi þess. Verkefnið er styrkt um tíu milljónir króna á árinu 2019, en hlaut 15 m.kr. styrk úr sama sjóði árið 2018.

Líkar þetta

Fleiri fréttir