Safnrekstur af Holtavörðuheiði. Ljósm. úr safni: Guðmundur Steinar Jóhannsson.

Borgarbyggð vinnur mál um beitarrétt

Héraðsdómur Vesturlands kvað í gær upp dóm sem snertir upprekstrarland á afrétti Þverhlíðinga og Tungnamanna sem nær að hluta yfir jörðina Krók í ofanverðum Norðurárdal. Deilur hafa staðið milli upprekstrarfélags bænda sem vísa til hefðarréttar og óþinglýsts samnings frá árinu 1924 þar sem þáverandi landeigandi Króks afsalaði sér þeim hluta jarðarinnar sem var afréttarmegin við afréttargirðingu til Upprekstrarfélags Þverárréttar. Þeim samningi var hins vegar aldrei þinglýst og byggir núverandi eigandi kröfu sína á því. Málið höfðaði Borgarbyggð í ágúst 2017 gegn landeiganda Króks og krafðist þess fyrir dómi að viðurkenndur verði réttur bænda í Upprekstrarfélagi Þverárréttar til beitarafnota af þeim hluta jarðarinnar Króks samningurinn frá 1924 nær til. Með gagnstefnu í október 2017 höfðaði stefndi gagnsök í málinu og krafðist þess aðallega að viðurkennt verði að Borgarbyggð sé óheimilt að safna fé sem rennur af fjalli að hausti á land jarðarinnar Króks og reka fé til réttar um landareignina. Þar sé nú búið að girða af land og skógrækt stunduð af kappi.

Héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu að Borgarbyggð eigi beitarafnotarétt að umræddu landi Króks og felst í þeim rétti, eðli málsins samkvæmt, einnig heimild til að reka fé um það sama land. Þar af leiðandi hafnaði dómurinn gagnsök eigenda Króks. Stefnda var gert að greiða málskostnað, 800 þúsund krónur.

Líkar þetta

Fleiri fréttir