María Júlía Jónsdóttir.

Segir af sér sveitarstjórnarstörfum

María Júlía Jónsdóttir, 1. varamaður Samfylkingarinnar í sveitarstjórn Borgarbyggðar, hefur sagt sig frá trúnaðarstörfum í sveitarstjórn. Afsagnarbréf var lagt fram fyrir fund byggðarráðs í dag en sveitartjórn þarf að staðfesta uppsögn. María Júlía hefur á þessu kjörtímabili verið varaformaður umhverfis,- skipulags- og landbúnaðarnefndar og fulltrúi sveitarfélagsins í stjórn Faxaflóahafna. Hún staðfestir í samtali við Skessuhorn að ástæða uppsagnarinnar sé samskiptavandi hennar og oddvita listans, sveitarstjórnarmannsins Magnúsar Smára Snorrasonar. „Við höfum ólíka sýn á stefnu og mál og samskipti okkar á milli hafa verið með þeim hætti að ljóst var að annað hvort okkar yrði að víkja. Þetta er því niðurstaða mín að vel athuguðu máli. Ég brenn hins vegar fyrir málefni sveitarfélagsins og mun vafalítið láta til mín taka á þeim vettvangi síðar,“ segir hún. Næstur á lista Samfylkingarinnar er Logi Sigurðsson, bústjóri á Hesti og verður hann varamaður í sveitarstjórn.

Líkar þetta

Fleiri fréttir