Ljósm. úr safni/ sá.

Dramatískur sigur Snæfells

Snæfellskonur halda mikilli spennu í baráttunni um sæti í úrslitakeppni Domino‘s deildar kvenna í körfuknattleik. Þær mættu Haukum í hörkuleik í Stykkishólmi á laugardaginn og sigruðu eftir æsispennandi lokamínútur, 76-74.

Mikið jafnræði var með liðunum í upphafsfjórðungnum og þau fylgdust að fyrstu mínúturnar. Undir lok leikhlutans náðu gestirnir smá rispu og leiddu með fjórum stigum eftir fyrsta leikhluta, 18-22. Snæfell skoraði fyrstu fjögur stig annars leikhluta og jafnaði metin. Haukar náðu þá yfirhöndinni á nýjan leik og náðu mest ellefu stiga forystu. Þá var komið að Snæfellskonum, sem minnkuðu muninn hratt en örugglega svo aðeins munaði tveimur stigum á liðunum í hléinu, 34-36.

Gestirnir úr Hafnarfirði komu ákveðnari til leiks eftir hléið og stjórnuðu ferðinni framan af þriðja leikhluta. Haukar leiddu með ellefu stigum um miðjan leikhlutann, áður en Snæfell tók til við að minnka muninn. Þær væru fjórum stigum á eftir gestunum fyrir lokafjórðunginn í stöðunni 51-55. Fjórði leikhluti var hnífjafn. Snæfell byrjaði hann betur og komst yfir áður en gestirnir náðu forystunni á nýjan leik. Liðin skiptust á að leiða síðustu sjö mínútur leiksins eða svo. Lokamínúturnar voru æsispennandi. Þegar mínúta lifði leiks jafnaði Rebekka Rún Karlsdóttir metin í 73-73 með þriggja stiga skoti. Haukar fóru á vítalínuna eftir næstu sókn og settu annað þeirra niður með hálfa mínútu á klukkunni. Snæfellskonur fengu dæmt á sig sóknarbrot í næstu sókn og útlitið ekki bjart. Þær stóðu hins vegar vörnina með stakri prýði svo skotklukkan rann út hjá Haukum þegar tíu sekúndur lifðu leiks. Snæfell stillti upp í sókn þar sem Gunnhildur Gunnarsdóttir fékk boltann fyrir utan þriggja stiga línuna á lokasekúndunum. Hún gerði sér lítið fyrir og setti skotið niður og tryggði Snæfelli gríðarlega mikilvægan sigur. Lokatölur voru 76-74, Snæfelli í vil.

Gunnhildur fór fyrir liði Snæfellskvenna, skoraði 27 stig og tók fimm fráköst. Angelika Kowalska var með 15 stig, sex fráköst og fimm stoðsendingar og Berglind Gunarsdóttir skoraði 15 stig einnig og tók fimm fráköst.

Rósa Björk Pétursdóttir var stigahæst í liði gestanna með 19 stig, Eva Margrét Kristjánsdóttir skoraði 17 stig, tók sjö fráköst og gaf fimm stoðsendingar, Þóra Kristín Jónsdóttir var með 14 stig og sex stoðsendingar.

Snæfellskonur hafa 32 stig í fimmta sæti deildarinnar, jafn mörg stig og KR í sætinu fyrir ofan þegar einn leikur er eftir af deildarkeppninni. Snæfell mætir deildarmeisturum Vals á morgun, þriðjudaginn 26. mars og þarf á sigri að halda. Á sama tíma mætir KR liði Keflavíkur og þá ræðst hvort liðið hreppir sæti í úrslitakeppninni.

Líkar þetta

Fleiri fréttir