Lækkað álverð dregur úr jákvæðri afkomu OR

Ársreikningur Orkuveitu Reykjavíkur fyrir árið 2018 hefur verið samþykktur í stjórn. Rekstrartekjur námu tæpum 46 milljörðum króna og rekstrarkostnaður 17,3 milljörðum. Að teknu tilliti til afskrifta, skatta og reiknaðra stærða var nettóhagnaður samsteypunnar jákvæður um sex milljarða króna, sem er tíu milljörðum króna lakari afkoma en var árið 2017. Lægra álverð spilar þar mest inní. „Fjárhagur fyrirtækisins er traustur og afkoma trygg, þrátt fyrir sveiflur í ytri skilyrðum. Þar er lykilatriði góð tök á rekstrarkostnaði en tekjur jukust á árinu með aukinni orkuvinnslu og vaxandi notkun veituþjónustunnar. Rekstrartekjur jukust um 5,2% frá árinu 2017. Rekstrarkostnaður jókst um 0,1%. Rekstrarhagnaður óx milli áranna 2017 og 2018 um rúman einn milljarð króna,“ segir í tilkynningu frá fyrirtækinu.

Stjórnin leggur það til fyrir aðalfund að eigendur fyrirtækisins; Reykjavíkurborg, Akraneskaupstaður og Borgarbyggð, fái greiddan arð sem nemur 1.500 milljónum króna vegna rekstrarársins.

Þá segir í tilkynningu: „Framundan eru talsverðar fjárfestingar til að mæta þörf fyrir meira vatn til húshitunar og til að tryggja heilnæmi neysluvatns úr Heiðmörk. Uppbygging nýs húsnæðis er mikil, ferðamönnum fjölgaði og viðskiptavinum á samkeppnismörkuðum sömuleiðis. Þá er sífellt betra jafnvægi að nást milli orkuvinnslu í Hellisheiðarvirkjun og afkasta jarðhitasvæðanna sem hún nýtir og jókst orkuvinnsla þar á árinu. Aukin vinnsla og aukin eftirspurn eftir þjónustu fyrirtækjanna innan OR-samstæðunnar – Veitna, Orku náttúrunnar og Gagnaveitu Reykjavíkur – skilar vaxandi tekjum milli ára. Álverð lækkaði og ræður það mestu um að reiknaðar stærðir ársreikningsins voru óhagstæðar. Engu að síður var heildarniðurstaða ársins jákvæð sem nemur tæpum sex milljörðum króna. Það er veruleg lækkun frá fyrra ári þegar þróun álverðs var hagstæð.“

Líkar þetta

Fleiri fréttir