Dansnámskeið til styrktar verkefninu Sýnum karakter

Framundan er fjögurra vikna dansnámskeið á Hvanneyri og í Borgarnesi. Námskeiðið er hluti af styrktarátaki fyrir sjálfsstyrkingu og bætta félagsfærni barna og unglinga innan Ungmennasambands Borgarfjarðar. Námskeiðið er haldið af Aldísi Örnu Tryggvadóttur og mun allir ágóði þess renna til verkefnisins Sýnum karakter, sem UMSB er að innleiða í samvinnu við UMFÍ um þessar mundir. Það verkefni byggist á að hægt sé að þjálfa og styrkja sálræna og félagslega færni iðkenda rétt eins og líkamlega færni.

„Ég vil láta gott af mér leiða og vekja athygli á þessu verkefni sem og mikilvægi þess að við hlúum vel að sjálfsmynd barnanna okkar,“ segir Aldís Arna í samtali við Skessuhorn. Hún segist hugfangin af verkefninu Sýnum karakter. Þess vegna hafi hún ákveðið að leggja sitt af mörkum. „Þar eru sérstakir kaflar um sjálfstraust, félagsfærni og leiðtoga, þá þætti sem taldir eru hvað mikilvægastir til að líða vel í eigin skinni, njóta lífsins og ná árangri. Sterkir einstaklingar sýna sjálfum sér og öðrum virðingu og þeir gefa meira af sér til annarra og þannig græða allir. Sjálfsrækt er eitt það mikilvægasta sem við gerum, að fjárfesta í sjálfum sér, gefa tilfinningum sínum gaum og geta tjáð sig. Fólk eyðir oft miklum tíma í að skilja og þóknast öðrum en veit svo ekki hvert það sjálft er. Útrásin við hreyfingu losar um gleðihormónið endorfín sem hjálpar okkur líka að finnast allt mögulegt um leið og við minnkum margfalt líkurnar á líkamlegri og andlegri vanlíðan. Hreyfing er allra meina bót,“ segir hún og bætir því við að henni þyki mikilvægt að byrja strax að hlúa að yngri kynslóðinni. „Það er miklu auðveldara að byggja upp sterka einstaklinga en að „laga“ fullorðið fólk síðar meir. Það er afar brýnt að einstaklingar læri strax að viðhalda og rækta þá sterku sjálfsmynd sem þau fengu í vöggugjöf, sjálfum sér, samferðarmönnum sínum og samfélaginu öllu til heilla,“ segir Aldís Arna.

Fyrsta dansnámskeiðið verður haldið í Borgarnesi næstkomandi þriðjudag, 26. mars og verður haldið átta sinnum frá þeim degi til 28. apríl. Dansað verður í Borgarnesi á þriðjudögum en á Hvanneyri á sunnudögum. Hægt er að mæta í stakan tíma, kaupa fjóra tíma eða allt námskeiðið, eða einfaldlega styrkja málefnið. Ágóðinn rennur sem fyrr segir allur til verkefnisins Sýnum karakter, sem verið er að innleiða hjá UMSB. Nánari upplýsingar og skráning á Facebook-síðunni Dance Aerobics í Borgarbyggð.

Þeim sem vilja leggja verkefninu lið er bent á að hægt er að gera það með því að leggja inn á eftirfarandi reikning:

Reikningsnr.: 0130-26-9981
Kennitala: 660269-5929.

Líkar þetta

Fleiri fréttir