Vilja að íslenskur matur sé í skólunum

Á fundi sveitarstjórnar Borgarbyggðar í síðustu viku kvað Guðveig Eyglóardóttir oddviti Framsóknarflokks sér hljóðs. Lagði hún fram tillögu þar sem hún kallar eftir samstöðu sveitarstjórnar í því að mörkuð verði stefna um innkaup gæðahráefnis í mötuneyti skólanna í sveitarfélaginu. „Í mötuneytum leik- og grunnskóla í sveitarfélaginu verði lögð sérstök áhersla á verslun með íslensk matvæli þar sem því verður við komið hverju sinni, sérstaklega verslun með íslenskt grænmeti og kjötafurðir. Auk þess verði gerð krafa er varðar uppruna, innihaldslýsingar og framleiðsluhætti þeirra vara sem boðið er upp á. Með áherslu á matvæli sem framleidd eru sem næst neytandanum, er auðveldara að koma til móts við auknar kröfur um gæði, hollustu, hreinleika og umhverfisvernd. Undirrituð óska eftir því að efni bókunarinnar verði vísað inn í byggðarráð til frekari umræðu.“ Sveitarstjórn samþykkti samhljóða að vísa tillögunni til fræðslunefndar og byggðarráðs.

Líkar þetta

Fleiri fréttir