Skallagrímur og Snæfell áttust við í gærkvöldi. Ljósm. úr safni/ sá.

Snæfellskonur sigruðu Vesturlandsslaginn

Skallagrímur og Snæfell mættust í Vesturlandsslag Domino‘s deildar kvenna í körfuknattleik í gær. Leikið var í Borgarnesi. Eftir jafnan og spennandi fyrri hálfleik náðu Snæfellskonur yfirhöndinni í þeim síðari og unnu að lokum átta stiga sigur, 63-71.

Liðin skiptust á að leiða fyrstu mínúturnar og fylgdust síðan að eftir það. Skallagrímskonur áttu lokaorðið í upphafsfjórðungnum og höfðu fjögurra stiga forskot að honum loknum, 18-14. Snæfellskonur sóttu hart að Borgnesingum í upphafi annars leikhluta en áfram leiddi Skallagrímur. Snæfell var þó aldrei langt undan. Þegar stutt var eftir af fyrri hálfleik gerðu Hólmarar áhlaup, komust yfir og leiddu með fimm stigum í hléinu, 34-39.

Snæfellskonur voru öflugri í þriðja leikhluta. Með góðum leik náðu þær mest 14 stiga forystu en Skallagrímskonur minnkuðu muninn í átta stig fyrir lokafjórðunginn. Fjórði leikhluti var jafnari, þar sem Snæfell leiddi en Skallagrímskonur gættu þess að missa Hólmara ekki of langt fram úr sér. Þeim tókst hins vegar aldrei að gera atlögu að forystu Snæfells. Fór svo að lokum að Snæfell sigraði með átta stigum, 63-71.

Maja Michalska var atkvæðamest í liði Skallagríms með 20 stig og tíu fráköst. Shequila Joseph skoraði 19 stig og tók 15 fráköst, Árnína Lena Rúnarsdóttir var með 14 stig og Sigrún Sjöfn Ámundadóttir skoraði tíu stig, tók átta fráköst og gaf sex stoðsendingar.

Gunnhildur Gunnarsdóttir var stigahæst Snæfellinga með 24 stig, Angelika Kowalska skoraði 20 stig og tók sjö fráköst. Katarina Matijevic skilaði hæsta framlaginu í liði Snæfells, þrátt fyrir að skora aðeins fjögur stig. Hún reif hins vegar niður 16 fráköst og gaf tíu stoðsendingar.

Baráttan um sæti í úrslitakeppninni er í algleymingi þegar tvær umferðir eru eftir í deildinni. Snæfellskonur sitja í fimmta sæti með 30 stig, jafn mörg stig og KR í sætinu fyrir ofan. Næst leika þær á laugardaginn, 23. mars, þegar þær mæta Haukum í Stykkishólmi.

Skallagrímskonur hafa tólf stig í sjöunda og næstneðsta sæti deildarinnar, fjórum stigum á undan Breiðabliki sem situr í fallsætinu. Skallagrímur leikur einnig á laugardaginn, þegar liðið tekur á móti KR í Borgarnesi.

Líkar þetta

Fleiri fréttir