Mynd af öryggissvæði vegna fellingar strompsins, áhorfendasvæðum og fleiru. Teikning: Akraneskaupstaður.

Stefnan að fella strompinn á hádegi á fimmtudag

Stefnt er að því að fella sementsstrompinn á Akranesi á hádegi á fimmtudag, 21. mars kl. 12:15. Miðast það við að framvinda við undirbúning gangi eftir. Ef undirbúningurinn gengur ekki eftir eins og áætlað er, þá verður fellingu strompsins frestað. Ný dagsetning verður þá auglýst á heimasíðu Akraneskaupstaðar með sólarhrings fyrirvara.

Strompurinn verður sprengdur í tvennu lagi. Annars vegar verður sprengt í um 25 metra hæð og fjórum sekúndum síðar verður sprengt við rætur strompsins. Efri hlutinn hlutinn verður látinn falla til suðausturs, en neðri hlutinn í suðvesturátt. Gefið verður út hljóðmerki rétt fyrir fellinguna, sem aðvörun um að sprengt verði innan nokkurra mínútna. Þegar strompurinn er fallinn verður gefið út annað hljóðmerki, til marks um að fellingin sé yfirstaðin og öll hætta liðin hjá.

Það er fyrirtækið Work North ehf. sem annast niðurrif á byggingum og búnaði Sementsverksmiðjunnar sálugu á Akranesi. Felling strompsins er unnin í fullu samráði við undirverktakann Dansk Sprænging Service, sem veitir sérfræðiaðstoð, skipuleggur fellinguna og mun stýra þeirri framkvæmd.

 

160 metra öryggissvæði

Töluverður viðbúnaður verður á Akranesi vegna fellingar strompsins. Sunnubraut, Merkigerði og Suðurgötu verður lokað um hálfri til einni klukkustund áður en sprengt verður en Faxabraut verður lokað strax að morgni fimmtudagsins. Öryggissvæði við fellingu strompsins verður í 160 metrar radíus umhverfis strompinn. Innan þess svæðis má engin manneskja vera óvarin. Íbúar í nokkrum húsum við Suðurgötu verða beðnir að yfirgefa hús sín. Íbúar húsa innan þess svæðis, sem ekki verða beðnir að yfirgefa hús sín, verða beðnir um að vera í skjóli frá gluggum þegar sprengt verður.

Hættan við aðgerð sem þessa er sú að það verði frákast, það er að segja að steinar fljúgi þegar skorsteinninn fellur. „Öryggisráðstafanir miðast m.a. við að eitthvað gæti farið öðruvísi en ætlað er. Umfram allt er það öryggi allra við þessa aðgerð sem skiptir mestu máli. Björgunarfélag Akraness og Lögreglan á Vesturlandi munu aðstoða við lokanir og eftirlit á svæðinu. Settir verða upp mælar til að mæla titring frá fallinu. Íbúar og vegfarendur eru beðnir um að virða öryggisreglur við fellingu skorsteinsins og einnig að hafa gætur á gæludýrum,“ segir í tilkynningu frá Akraneskaupstað.

Líkar þetta

Fleiri fréttir