Í fyrsta skipti sem mótframboð berst gegn tillögu trúnaðarráðs í StéttVest

Dagana 1. til 5. apríl næstkomandi fer fram kosning um þrjú trúnarstörf í stjórn Stéttarfélags Vesturlands, þ.e. formann, ritara og fyrsta meðstjórnanda. Samkvæmt 20. grein laga félagsins er skylt að viðhafa allsherjaratkvæðagreiðslu við kjör stjórnar þegar mótframboð berst. Er þetta í fyrsta skipti frá stofnun félagsins árið 2006 sem mótframboð kemur fram við tillögu sem trúnaðarráð leggur fram. Stjórnarmenn í Stéttarfélagi Vesturlands eru kosnir til tveggja ára í senn. Annað árið er kosinn formaður, ritari og einn meðstjórnanda en hitt árið er kosinn varaformaður, vararitari og einn meðstjórnandi. Signý Jóhannesdóttir er núverandi formaður Stéttarfélags Vesturlands og býður sig fram til formennsku sem fulltrúi trúnaðarráðs, sem kallast A-listi samkvæmt lögum félagsins. Jafnframt býður Eiríkur Þór Theódórsson sig fram í starf formanns og er hann fulltrúi B-lista. Baldur Jónsson býður sig fram til ritara fyrir A-lista, en gegn honum Skúli Guðmundsson af B-lista. Jónína Heiðarsdóttir er í framboði til fyrsta meðstjórnanda af A-lista en einnig María Hrund Guðmundsdóttir af B-lista.

Stéttarfélag Vesturlands var stofnað 31. maí 2006 þegar þrjú verkalýðsfélög sameinuðust. Þetta voru Verkalýðsfélag Borgarness, Verkalýðsfélagið Hörður í Hvalfirði og Verkalýðsfélagið Valur í Búðardal. Innan félagsins starfa fimm deildir: Iðnsveinadeild; deild verslunar- og skrifstofufólks; matvæla-, flutninga- og þjónustudeild; iðnaðar-, mannvirkja- og stóriðjudeild og deild starfsfólks hjá ríki og sveitarfélögum. Félagið er aðili að Starfsgreinasambandi Íslands, Samiðn og Landssambandi íslenskra verslunarmanna, auk Alþýðusambands Íslands. Félagssvæði félagsins er frá botni Hvalfjarðar til botns Gilsfjarðar í vestri fyrir utan norðanvert Snæfellsnes.

Kosning í stjórn Stéttarfélags Vesturlands fer fram á þremur stöðum á félagssvæðinu í byrjun apríl. Á skrifstofu félagsins í Borgarnesi dagana 1.-5. apríl, Í Búðardal dagana 1.-3. apríl og í Hvalfjarðarsveit 1.-3. apríl. Niðurstöðu kosningarinnar verður svo lýst á aðalfundi félagsins og tekur þá nýkjörin stjórn við.

Greinilegt er að brestur er kominn í samstöðu félagsmanna í Stéttarfélagi Vesturlands ef tekið er tillit til að þetta er fyrsta mótframboð sem berst tillögu trúnaðarráðs frá því félagið var stofnað. Í tilkynningu sem Skessuhorn hefur undir höndum, frá fulltrúum B-lista sem bjóða fram gegn sitjandi stjórn, kemur fram að þeir telja sig vera að svara ákalli um breyttar áherslur og breytt vinnubrögð formanns og stjórnar félagsins. „Við viljum bæta og nútímavæða vinnubrögð og að félagið endurheimti traust íslenskra sem og erlendra félagsmanna,“ segir í tilkynningu frá þeim Eiríki Þór Theodórssyni, Skúla Guðmundssyniog Maríu Hrund Guðmundsdóttur fulltrúa B-lista.

Líkar þetta

Fleiri fréttir