Ferðamenn mynda Lóndranga á Snæfellsnesi síðasta sumar. Ljósm. úr safni/ glh.

Gott ástand friðlýstra áfangastaða

Umhverfisstofnun kynnti nýverið ástandsmat áfangastaða innan friðlýstra svæða á árinu 2018. Þar er fjallað um ástand þekktra áfangastaða víða um land, sem eiga það sammerkt að vera undir álagi vegna gestasóknar. Notað er litakerfi í skýrslunni. Þeir áfangastaðir sem fá heildareinkunn lægri en 5 eru rauðir og teljast í verulegri hættu hvað varðar verndargildi staðanna. Áfangastaðir með heildareinkunn milli 5 og 6 fá appelsínugulan lit, sem þýðir að talin er hætta á að þeir geti tapað verndargildi sínu. Að lokum fá staðir með heildareinkunn hærri en 8 grænan lit og teljast ekki í hættu. „Í ár verður sett fram sú nýbreytni í skýrslunni að tilgreina sérstaklega áfangastaði innan friðlýstra svæða sem standast vel það álag sem á þeim er. Óneitanlega er misjafnt milli þessara staða hversu fjölsóttir þeir eru og hafa ber í huga að sumir þeirra koma vel út vegna fæðar ferðamanna. Ekki er líklegt að ágætiseinkunn héldi sér ef gestakomur myndu aukast mikið án frekari innviðauppbyggingar,“ segir í skýrslu Umhverfisstofnunar. „Vert er þó að tilgreina að hér er jafnframt að finna áfangastaði sem hafa verið byggðir upp til að taka við miklum fjölda gesta. Má þar nefna alla áfangastaði innan Þjóðgarðsins Snæfellsjökuls,“ segir þar enn fremur.

Enginn staður á Vesturlandi í hættu

Áfangastaðirnir á Vesturlandi sem úttektin nær til eru Arnarstapi, Búðahraun, Eldborg, Geitland, Grábrók, Hraunfossar, Húsafell, ströndin milli Stapa og Hellna auk átta áfangastaða innan Þjóðgarðsins Snæfellsjökuls; Djúpalóns, Lóndranga, Malarrifs, Saxhóls, Skarðsvíkur, Skálasnaga, Svalþúfu og Öndverðarness. Skemmst er frá því að segja að áfangastaðirnir á Vesturlandi standa almennt mjög vel að vígi. Enginn þeirra hefur lægri einkunn en 7 sem þýðir að enginn telst í verulegri hættu og enginn er talinn eiga á hættu að geta tapað verndargildi sínu. Enn fremur eru allnokkrir staðir á Vesturlandi sem standa vel að vígi og falla í græna flokkinn. Þeir eru Búðahraun, Grábrók og Húsafell, auk eftirfarandi staða innan Þjóðgarðarins Snæfellsjökuls; Djópalón, Lóndrangar, Malarrif, Saxhóll, Skarðsvík, Skálasnagi og Svalþúfa. Loks má nefna að af þeim stöðum sem mat Umhverfisstofnunar nær til hafði Geitland fallið í appelsínugula flokkinn frá 2012-2016 og ströndin milli Stapa og Hellna var metin í sama flokki árið 2016. Hvorugt svæðanna telst nú eiga á hættu að tapa verndargildi sínu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Hart á hrossum

Matvælastofnun brýnir fyrir hrossaeigendum að koma heyi í útigangshross og huga vel að ástandi þeirra nú þegar rofað hefur til... Lesa meira