Borgarfjarðarbrú 2005. Ljósm. úr safni: Mats Wibe Lund.

Vilja að umferðaröryggi verði bætt á nokkrum stöðum í Borgarbyggð

Á fundi sveitarstjórnar Borgarbyggðar síðastliðinn fimmtudag var í ályktun tekið undir ályktanir umhverfis,- skipulags- og landbúnaðarnefndar er varðar umferðaröryggi og úrbætur í umferðaröryggismálum. Því er beint til Vegagerðarinnar að vinna að úrbótum til að auka megi umferðaröryggi.

„Brýnt er að hefja vinnu við hönnun á göngu- og hjólreiðastíg um Borgarfjarðarbrú þannig að framkvæmdir við það verkefni geti hafist sem fyrst. Sunnan Borgarfjarðarbrúar er fjölsótt og vinsælt útivistarsvæði. Mikilvægt er að bæta aðgengi íbúa þéttbýlisins í Borgarnesi og sívaxandi fjölda ferðafólks sem dvelur í sveitarfélaginu að þessu svæði og draga úr hættu gangandi og hjólandi fólks af mikilli umferð sem á leið yfir Borgarfjarðarabrú. Einnig tekur sveitarstjórn undir áherslur umhverfis,- skipulags- og landbúnaðarnefndar um nauðsyn þess að bæta umferðaröryggi á vegkaflanum frá Borgarfjarðarbrú að Hvanneyri og áfram upp að Kleppjárnsreykjum. Veðrasamt er á þessum vegkafla og því mikilvægt að fjölga vindmælum á þessari leið. Þörf fyrir fjölgun vindmæla er síðan víðar fyrir hendi á Borgarfjarðarbraut. Þessu tengt er rétt að minna á mikilvægi þess að setja upp vegrið á ákveðnum köflum í nágrenni Grjóteyrar. Sveitarstjórn Borgarbyggðar skorar því á Vegagerðina að hefjast handa við fyrrgreind verkefni og stuðla þannig að auknu umferðaröryggi á fyrrgreindum stöðum.“

Líkar þetta

Fleiri fréttir