Horft til vesturs eftir framdalnum í Skorradal. Ljósm. mm.

Gera framdal Skorradals að verndarsvæði í byggð

Hreppsnefnd Skorradalshrepps samþykkti á fundi sínum 20. febrúar að auglýsa tillögu að verndarsvæði í byggð fyrir framdalinn í Skorradal. Í stuttu máli felur tillagan í sér að svipmót búsetulandslags framdalsins verði verndað, sem og að þekkingu um fornar þjóðleiðir um svæðið verði viðhaldið.

Framtalurinn er suðaustasti hluti Skorradalsvatns auk dalsins beggja vegna við vatnið og tilheyrir sókn Fitjakirkju. Ákveðið var að afmarka verndarsvæðið við heimatún bæja innst í dalnum þar sem svipmót landbúnaðarlandslags fyrri tíma hefur varðveist nokkuð vel, dreifing minja er þétt og þekkt er talsvert af gömlum þjóðleiðum. Verndarsvæðið afmarkast þannig af heimatúnum bæjanna Háafells, Fitja, Sarps, Efstabæjar, Bakkakots og Vatnshorns. Verndunin nær einnig til gömlu þjóðleiðanna sem liggja um lönd bæjanna.

Í rökstuðningi segir að sérstaða framdals Skorradals felist meðal annars í því að hann geti orðið nokkurs konar kennslustofa um þróun byggðar og búskaparhátta, um leið og hann er kyrrlátur áfangastaður til útiveru.

Tillagan liggur frammi á skrifstofu Skorradalshrepps og heimasíðu sveitarfélagins. Þeim sem telja sig eiga hagsmuna að gæta gefst kostur á að gera formlegar athugasemdir til og með 12. apríl.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Flugslys í Svefneyjum

Flugslys varð í Svefneyjum á Breiðafirði síðdegis síðastliðinn fimmtudag. Flugvél í flugtaki fékk á sig vindhviðu undir vænginn með þeim... Lesa meira