Frá mótmælunum á Akratorgi í dag. Ljósm. kgk.

Verkfall fyrir loftslagið á Akranesi

Skólafólk á Akranesi fór í verkfall fyrir loftslagið á Akranesi í dag. Milli 80 og 90 manns voru þar saman komin í hádeginu til að vekja athygli á málstaðnum. Flestir eru á fjölbrautaskólaaldri en þó nokkuð af grunnskólakrökkum líka, allt niður í 5. bekk, sem og eldra fólk sem lokið hefur skólagöngu en brennur fyrir málstaðnum.

Það var umhverfisnefnd Fjölbrautaskóla Vesturlands sem boðaði til verkfallsins. Er það að fyrirmynd bylgju loftslagsverkfalla sem hin sænska Greta Thunberg hefur komið af stað meðal ungmenna víða um heim. Á sama tíma voru skólaverkföll fyrir loftslagið á yfir 1300 stöðum í um eitt hundrað löndum í heiminum.

Bæjarstjórn krafin um breytingar strax í umhverfismálum

Akranes var í hópi yfir 1.600 staða í 105 löndum þar sem nemendur og aðrir mótmæltu í dag slæmum vinnubrögðum stjórnvalda um allan heim varðandi loftslagsmál. Ungmennaráð Akraness sendu frá sér yfirlýsingu vegna loftslagsverkfallsins. Þar segir m.a.:

„Nú er verið að vinna í umhverfisstefnu Akraneskaupstaðar og biðlum við því til ykkar að ráðast strax í aðgerðir og setja Akraneskaupstað í forystu sveitarfélaga á Íslandi í umhverfis- og loftslagsmálefnum. Fylgja þarf eftir niðurstöðum samráðshóps um aðgerðaáætlun í plastmálefnum sem skilaði tillögum til umhverfis- og auðlindaráðherra í lok síðasta árs. Auka þarf vitund fólks í bænum um ofnotkun á einnota plastvörum og skaðsemi þeirra fyrir umhverfið, draga úr notkun einnota plasts, draga úr losun örplasts í hafið með bættri hreinsun skólps og hvetja til göngu og hjólreiða um bæinn til að minnka útblástur. Okkar framtíð er í hættu! Það er engin pláneta B! Það er löngu kominn tími á aðgerðir. Við höfum ekki tíma til að bíða, breytingar strax!“

 

Líkar þetta

Fleiri fréttir