Skallagrímsmenn máttu játa sig sigraða í lokaleik Domino‘s deildar karla. Ljósm. úr safni/ Skallagrímur.

Tap í lokaleiknum

Skallagrímsmenn biðu lægri hlut gegn Njarðvík, 113-84, í lokaleik Domino‘s deildar karla í körfuknattleik í gærkvöldi. Leikið var suður með sjó.

Mikið jafnræði var með liðunum framan af fyrsta leikhluta. Þá tóku heimamenn að síga fram úr og leiddu með níu stigum eftir upphafsfjórðunginn, 36-27. Skallagrímsmenn komu til baka og minnkuðu muninn hægt og sígandi í fjögur stig skömmu fyrir hálfleik, en Njarðvíkingar áttu lokaorðið og voru tíu stigum yfir í hléinu, 65-52.

Heimamenn höfðu yfirhöndina í þriðja leikhluta, juku forskot sitt jafnt og þétt og leiddu með 23 stigum fyrir lokafjórðunginn, 94-71. Þeir bættu lítið eitt við forskotið í fjórða leikhlutanum og sigruðu að lokum stórt, 113-84.

Bjarni Guðmann Jónsson var stigahæstur í liði Skallagríms með 27 stig, Aundre Jackson skoraði 16 stig, tók tíu fráköst og gaf fimm stoðsendingar, Matej Buovac var með 15 stig og fimm fráköst og Björgvin Hafþór Ríkharðsson var með 13 stig, 15 fráköst og sjö stoðsendnigar.

Elvar Már Friðriksson var stigahæstur í liði heimamanna með 27 stig og fimm fráköst að auki. Kristinn Pálsson var með 16 stig, Erik Katenda skoraði 15 stig og tók sjö fráköst, Logi Gunnarsson skoraði ellefu stig og tók fimm fráköst og þeir Snjólfur Marel Stefánsson og Jeb Ivey skoruðu tíu stig hvor.

Skallagrímsmenn náðu í átta stig í Domino‘s deildinni í vetur og ljúka mótinu í ellefta sæti. Þeir munu því leika í 1. deild karla næsta vetur.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Flugslys í Svefneyjum

Flugslys varð í Svefneyjum á Breiðafirði síðdegis síðastliðinn fimmtudag. Flugvél í flugtaki fékk á sig vindhviðu undir vænginn með þeim... Lesa meira