Ljósm. úr safni/ Skallagrímur.

Tap eftir jafnan síðari hálfleik

Skallagrímskonur lutu í lægra haldi gegn Stjörnunni þegar liðin mættust í Domino‘s deild kvenna í körfuknattleik á miðvikudagskvöld. Leikið var í Garðabæ. Síðari hálfleikur var lengi jafn og leikurinn spennandi, en að lokum fór svo að Stjarnan hafði fimm stiga sigur, 72-67.

Stjarnan var mun betri í fyrsta leikhluta og leiddi 20-11 að honum loknum. Skallagrímskonur sóttu í sig veðrið í öðrum fjórðungi, færðust hægt og rólega nær heimakonum og jöfnuðu metin í 30-30 þegar þrjár mínútur lifðu af leikhlutanum. En Stjarnan átti lokaorðið í fyrri hálfleik og fór með þriggja stiga forystu inn í hléið, 40-37.

Skallagrímskonur komu ákveðnar til síðari hálfleiks og tóku forystu í leiknum. Þær leiddu lengst framan af þriðja leikhluta, en Stjarnan endaði leikhlutann á góðri rispu sem skilaði liðinu átta stiga forskoti fyrir lokafjórðunginn, 55-47. Heimakonur héldu forystunni framan af fjórða leikhluta. En Skallagrímskonur voru hvergi af baki dottnar. Smám saman minnkuðu þær muninn og voru komnar þremur stigum frá Stjörnunni seint í leiknum. En nær komust þær ekki. Stjarnan náði að verja forystuna og sigra með fimm stigum, 72-67.

Shequila Joseph var atkvæðamest í liði Skallagríms með 25 stig, 17 fráköst og fimm stoðsendingar. Maja Michalska skoraði 18 stig og tók átta fráköst og Sigrún Sjöfn Ámundadóttir var með tólf stig og sjö fráköst.

Veronika Dzhikova skoraði 18 stig og tók fimm fráköst í liði Stjörnunnar, Bríet Sif Hinriksdóttir var með 14 stig og Jóhanna Björk Sveinsdóttir tíu stig og sjö fráköst.

Skallagrímskonur sitja í sjöunda sæti deildarinnar með tólf stig, sex stigum meira en botnlið Breiðabliks þegar þrjár umferðir eru eftir. Næsti leikur Skallagríms er Vesturlandsslagur gegn Snæfelli í Borgarnesi miðvikudaginn 20. mars.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Flugslys í Svefneyjum

Flugslys varð í Svefneyjum á Breiðafirði síðdegis síðastliðinn fimmtudag. Flugvél í flugtaki fékk á sig vindhviðu undir vænginn með þeim... Lesa meira