Greta Thunberg með kröfuspjald við upphaf mótmæla hennar. Hún hefur nú lyft grettistaki og lyft umræðunni um loftslagsmál upp á hærra plan með almennri þátttöku ungs fólks.

Lofslagsverkfall á Akranesi á morgun

Boðað hefur verið lofslagsverkfalls á Akratorgi á Akranesi á morgun, föstudaginn 14. mars kl. 12:00. Er það að fyrirmynd bylgju loftslagsverkfalla sem hin sænska Greta Thunberg hefur komið af stað meðal ungmenna víða um heim. Á sama tíma verða verkföll fyrir loftslagið á yfir 1300 stöðum í heiminum í 98 löndum.

Það eru nemendur í umhverfisnefnd Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi sem hafa boðað til verkfallsins á Akratorgi á morgun. Við skipulag og undirbúning nýtur umhverfisnefndin handleiðslu Helenu Valtýsdóttur kennara. Skessuhorn hitti hluta umhverfisnefndar að máli síðdegis í gær. Þau Jórunn Narcisa Gutierrez, Katla Kristín Ófeigsdóttir og Sindri Leví Ingason höfðu verið önnum kafin þann daginn við að hengja upp plaköt í skólunum á Akranesi, félagsmiðstöðvunum og fleiri stöðum og kynna viðburðinn fyrir ungu fólki í bænum. „Tilgangurinn með því að hvetja nemendur til að skrópa í skólanum og fara í loftslagsverkfall er að reyna að neyða stjórnmálamenn til að fara að huga af einhverri alvöru að umhverfismálum og loftslagsmálum. Okkur stendur ekki á sama því það erum við sem munum þurfa að glíma við afleiðingarnar í framtíðinni, ekki þeir sem eru eldri. Enda virðist þeim flestum standa nokkurn veginn á sama, það hefur allavega ekki mikið verið gert til þessa,“ segja þau. „Það er löngu kominn tími til að gera eitthvað í málunum, það er ekkert plan B. Við eigum bara þessa einu plánetu og við höfum ekki tíma til að bíða, við þurfum breytingar og það strax,“ bæta þau við. „Þess vegna hvetjum við alla til að mæta með spjöldin á lofti og baráttuandann í brjósti. Allir eru velkomnir á viðburðinn en sérstaklega vonumst við til að sjá nemendur skólanna á Akranesi, ungu kynslóðina sem mun þurfa að takast á við afleiðingarnar af hlýnun jarðar og stendur ekki á sama,“ segja Jórunn, Katla og Sindri að endingu.

„Skólaverkfall fyrir loftslagið“

Sem fyrr segir fyrirhuga börn og ungmenni víða um heim að efna til mótmælafunda í baráttunni fyrir aðgerðum í loftslagsmálum á morgun. Fjöldahreyfing barna og ungmenna hafa farið að fordæmi hinnar sextán ára Grétu Thunbergs frá Svíþjóð. Þessi stúlka hefur beitt sér fyrir því að vekja jafnaldra sína, eldra fólk og stjórnmálamenn sérstaklega til umhugsunar um loftslagsmál. Talið er að starf hennar hafi nú þegar breytt meiru í loftslagsmálum en virðulegar sendinefndir hátt í 200 þjóða hafa gert fram að þessu á allskyns COP-fundum sem litlu og jafnvel engu hafa skilað í baráttunni. Mengun er nefnilega efnhagslegt stórmál. Ef það er hagur ríkja að reka mengandi iðnað og almennt að sporna ekki við mengun, þá er þverskallast við.

 

Fyrir nokkru fjallaði Stefáns Gíslason umhverfisstjórnunarfræðingur í Borgarnesi um frumkvöðlastarf hinnar sænsku Grétu. „Þrautseigjan er heimavöllur Gretu Thunberg,“ skrifar Stefán. „Afskipti Gretu af loftslagsmálum byrjuðu fyrir alvöru í maí í fyrra þegar hún var meðal vinningshafa í ritgerðarsamkeppni sem Svenska Dagbladet efndi til. Upp úr því höfðu ýmsir samband við hana og næstu vikur var lagt á ráðin um aðgerðir sem skólakrakkar gætu gripið til til að vekja athygli á loftslagsmálum. Hún sá hins vegar ekki fram á að þær aðgerðir myndu gera mikið gagn, þannig að hún ákvað að gera þetta bara ein og sjálf. Það fyrsta sem hún gerði var að útbúa stórt spjald á stofugólfinu heima hjá sér með áletruninni „Skolstrejk för klimatet,“ eða Skólaverkfall fyrir loftslagið.“

 

Gréta hélt áfram og 20. ágúst í fyrra, daginn sem hún átti að byrja í 10. bekk, eins og sá bekkur er kallaður á Íslandi, skrópaði hún í skólanum og sat í þess stað ein með spjaldið sitt fyrir utan þinghúsið í Stokkhólmi, ákveðin í að vera þar á skólatíma hvern einasta dag fram yfir sænsku þingkosningarnar 9. september. „Krafan var einföld: Að ríkisstjórn Svíþjóðar myndi draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í samræmi við Parísarsamkomulagið. Sjálf hefur hún orðað það þannig að henni hafi ofboðið svo að ekkert skyldi vera gert til að bregðast við loftslagskreppunni að hún yrði sjálf að gera eitthvað. Og stundum talar maður hærra með því gera ekkert, eins og t.d. að sitja bara fyrir utan þinghúsið, en að gera eitthvað, alveg eins og hvísl er stundum háværara en hróp, eins og hún hefur sjálf orðað það.“ Eftir 9. september í fyrra fór Greta að mæta í skólann fjóra daga í viku og lét nægja að vera í verkfalli á föstudögum. Og smátt og smátt fóru fleiri að veita þessu uppátæki eftirtekt, ekki bara í Stokkhólmi og ekki bara í Svíþjóð, heldur út um allan heim,“ skrifar Stefán Gíslason. Þar á meðal á Íslandi.

 

 

Líkar þetta

Fleiri fréttir