Kynningarfundir um verkefnið GróLind í Lindartungu

Þessa dagana er Landgræðslan á fundaferðalagi um Vesturland. Um er að ræða kynningar- og samráðsfundi um verkefnið GróLind. Markmið verkefnisins er að skila með reglubundnum hætti heildarmati á ástandi gróður- og jarðvegsauðlinda landsins og gera grein fyrir breytingum þar á, sem og að þróa sjálfbærnivísa fyrir nýtingu þessara auðlinda. „Íslensk þurrlendisvistkerfi veita fjölbreytta þjónustu; þau eru grundvöllur margs konar atvinnustarfsemi, draga úr áhrifum náttúruhamfara og miðla okkur neysluvatni. Við allan atvinnurekstur þar sem gæði landsins eru nýtt, svo sem við hefðbundinn landbúnað eða ferðaþjónustu er mikilvægt að góð þekking á gróður- og jarðvegsauðlindum landsins sé til staðar. Því þurfa upplýsingar um ástand lands og breytingar á því að liggja fyrir á hverjum tíma, svo unnt sé að tryggja sjálfbæra nýtingu,“ segir um verkefnið á heimasíðu Landgræðslunnar.

Kynningar- og samráðsfundirnir verða haldnir í Búðardal, Borgarfirði og á Snæfellsnesi. Fjallað verður um aðferðafræði verkefnisins, svo sem ástandsmat, þróun sjálfbærnivísa fyrir landnýtingu, kortalagningu beitilanda, könnun á beitaratferli sauðfjár og samstarf við landsnotendur. Fyrsti fundurinn í landshlutanum var haldinn í Félagsheimilinu Dalabúð í Búðardal á þriðjudagskvöld. Annar fundurinn var í gær í Félagsheimilinu Valfelli í Borgarhreppi og sá þriðji verður í Félagsheimilinu Lindartungu í Kolbeinsstaðahreppi í kvöld, fimmtudaginn 14. mars kl. 20:00.

Fundirnir eru öllum opnir og Landgræðslan hvetur alla til að mæta og taka þátt í þróun verkefnisins.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Flugslys í Svefneyjum

Flugslys varð í Svefneyjum á Breiðafirði síðdegis síðastliðinn fimmtudag. Flugvél í flugtaki fékk á sig vindhviðu undir vænginn með þeim... Lesa meira