Leikarar ásamt leikstjóra. Mynd tekin að aflokinni generalprufu í gærkvöldi.

Frumsýna í kvöld Fullkomið brúðkaup í Lyngbrekku

Leikdeild Ungmennafélagsins Skallagríms frumsýnir í kvöld gamanleikinn Fullkomið brúðkaup eftir Robin Hawdon í þýðingu Arnar Árnasonar í félagsheimilinu Lyngbrekku. Verkið er eftir sama höfund og skrifaði leikgerðina á Sex í sveit sem er ein fjölsóttasta leiksýning hér á landi frá upphafi. Verkið Fullkomið brúðkaup var fyrst fært á fjalirnar í Menningarhúsinu Hofi 2005 og naut mikilla vinsælda. Það hefur síðan verið sýnt í Borgarleikhúsinu og víðar um land. Leikstjóri hjá Umf. Skallagrími er Guðmundur Lúðvík Þorvaldsson.

Óhætt er að segja að verkið byggi á misskilningi allt frá fyrsta augnabliki og til söguloka. Hér er á ferðinni rómantískur gamanleikur; hraður, stappfullur af misskilningi, lygi, framhjáhaldi og ást. Sagt er frá ungu fólki og atburðum í lífi þess á hóteli nokkrum tímum fyrir brúðkaup. Að morgni vaknar brúðguminn með konu sér við hlið. Konu sem hann minnist ekki að hafa séð fyrr. Spuninn byggist síðan á að komast að því hvað raunverulega gerðist nóttina fyrir brúðkaupið og hylja raunverulega atburðarás.

Hlutverkin í sýningunni eru sex talsins. Þau eru í höndum Hákonar M Magnússonar, Jónasar Þorkelssonar, Svanhvítar Pétursdóttur, Ásu Dóru Garðarsdóttur, Aðalbjargar Þórólfsdóttur og Ágústs Þorkelssonar. Frumsýning verður í kvöld en sýningarplan gerir ráð fyrir alls ellefu sýningum næsta mánuð.

Almennt miðaverð er 3000 kr, eldri borgarar og öryrkjar greiða 2500 kr en börn yngri en 12 ára 2000 kr.

Miðapantanir eru í síma 846-2293 eða á leikdeildskalla@gmail.com

Sýningar:

Frumsýning 22. feb kl.20:30

  1. sýning 24. feb kl.20:30
  2. sýning 28. feb kl.20:30
  3. sýning 1. mars kl.20:30
  4. sýning 3. mars kl.20:30
  5. sýning 8. mars kl.20:30
  6. sýning 10. mars kl.20:30
  7. sýning 14. mars kl.20:30
  8. sýning16. mars kl.20:30
  9. sýning 21. mars kl.20:30
  10. sýning 22. mars kl.20:30
Líkar þetta

Fleiri fréttir

Flugslys í Svefneyjum

Flugslys varð í Svefneyjum á Breiðafirði síðdegis síðastliðinn fimmtudag. Flugvél í flugtaki fékk á sig vindhviðu undir vænginn með þeim... Lesa meira