Ráðhúsið „leikur“ lögreglustöð

Efnisveitan Netflix hefur samið við RÚV og framleiðslufyrirtkæin Mystery og Truenorth um sýningarrétt á sjónvarpsþáttaröðinni The Valhalla Murders. Er þetta í fyrsta sinn sem Netflix gerir samning um framleiðslu og fjármögnun á leiknum íslenskum sjónvarpsþáttum.  Þættirnir verða á íslensku, þrátt fyrir enskan titil, og segja frá því þegar þriðja manneskjan finnst myrt í sömu vikunni og rennur upp fyrir lögreglu að fyrsti íslenski raðmorðinginn gengur laus. Rannsókn lögreglu leiðir öll að sama staðnum, dularfullu en yfirgefnu drengjaheimili sem ber nafnið „Valhalla“. Öll fórnarlömbin tengjast með einum eða öðrum hætti hryllilegum atburðum sem þar áttu sér stað 35 árum áður.

Hluti sjónvarpsþáttaraðarinnar verður tekinn upp í Ráðhúsi Borgarbyggðar í Borgarnesi. Ráðhúsið verður fært í búning lögreglustöðvar, þar sem mikilvægustu gögn þáttaraðarinnar eru geymd. Munu þau gögn fletta ofan af söguþræði þáttaraðarinnar. Áætlað er að tökur í Ráðhúsi Borgarbyggðar hefjist að morgni föstudagsins 1. mars og standi yfir fram á sunnudaginn 3. mars.

Frumsýnt um næstu áramót

Höfundur þáttanna er Þórður Pálsson og verður hann jafnframt einn af leikstjórunum ásamt Davíð Óskari Ólafssyni og Þóru Hilmarsdóttur. Handritshöfundateymið er skipað þeim Margréti Örnólfsdóttur, Óttari Norðfjörð, Ottó Geir Borg og Mikael Torfasyni. Björn Thors og Nína Dögg Filippusdóttir fara með aðalhlutverk þáttanna.

Kostnaður við framleiðslu þáttanna nemur um 700 milljónum króna. Tryggir samningurinn við Netflix að nær helmingur þeirra peninga komi erlendis frá, í gegnum Netflix og frekari sölu þáttaraðarinnar, að því er fram kemur í tilkynningu frá Skarphéðni Guðmundssyni, dagskrárstjóra RÚV. „Þessi tímamótasamningur við Netflix og þetta mjög svo áhugaverða verkefni yfir höfuð er stór áfangi í umfangsmikilli og markvissri vinnu okkar á RÚV sem miðar að því að auka til muna framboð, dreifingu en umfram allt gæði leikins íslensks sjónvarpsefnis,“ er haft eftir Magnúsi Geir Þórðarsyni útvarpsstjóra í tilkynningunni. Gert er ráð fyrir því að þáttaröðin verði frumsýnd á RÚV nálægt næstu áramótum og verði fljótlega eftir það aðgengileg um allan heim í gegnum Netflix.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Flugslys í Svefneyjum

Flugslys varð í Svefneyjum á Breiðafirði síðdegis síðastliðinn fimmtudag. Flugvél í flugtaki fékk á sig vindhviðu undir vænginn með þeim... Lesa meira