Marki fagnað. Ljósm. úr safni; gbh.

Tæplega 48 milljóna króna hagnaður af rekstri KFÍA

Aðalfundur Knattspyrnufélags ÍA var haldinn síðastliðið mánudagskvöld. Fundurinn hófst á stuttu ávarpi Guðna Bergssonar, formanns Knattspyrnusambands Íslands. Að svo búnu fór Magnús Guðmundsson, stjórnarformaður KFÍA, yfir ársskýrslu félagsins. Sigurður Þór Sigursteinsson framkvæmdastjóri og Heimir Fannar Gunnlaugsson fóru síðan yfir ársreikning síaðsta árs og kynntu áætlun ársins 2019.

Í ársreikningi og ársskýrslu kemur fram að tekjur og útgjöld félagsins hafi aukist á öllum vígstöðvum á síðasta ári, það er að segja hjá bæði meistaraflokkum karla og kvenna sem og yngri flokkum. Rekstrartekjur voru 253 milljónir króna og rekstrargjöld 205,5 milljónir. Félagið skilaði því 47,5 milljóna króna hagnaði á árinu 2018. Í ársskýrslu segir að hagnaðurinn skýrist að mestu af sölu á leikmönnum til erlendra félaga. Þá kemur einnig fram að framlag sem félagið fékk frá KSÍ vegna HM hafi verið nýtt með því að auka afreks- og styrktarþjálfun yngri flokka.

Iðkendur hjá knattspyrnufélaginu voru um 500 talsins á breiðu aldursbili um áramótin síðustu, að því er fram kemur í ársskýrslu. Samtals voru leiknir 478 opinberir keppnisleikir á árinu 2018 í öllum flokkum félagsins. Skiptast þeir þannig að skráðir leikir í kvennaflokkum eru 139 en 339 í karlaflokkum. Knattspyrnufélagið lék alls 141 leik í Akraneshöllinni og 99 á Akranesvelli.

 

Gullmerki og heiðursviðurkenningar

Á aðalfundinum voru jafnframt veitt gullmerki og heiðursviðurkenningar fyrir störf í þágu félagsins. Gísli Gíslason fékk gullmerki og Ágústa Friðriksdóttir, Einar Brandsson, Kristleifur Brandsson og Sigurður Arnar Sigurðsson heiðursviðurkenningu.

Gísli var sæmdur gullmerki fyrir framlag sitt til knattspyrnufélags ÍA, sem stjórnarmaður til fjölda ára, fyrir vinnu sína að innra starfi félagsins og sem dyggur stuðningsmaður.

Ágústa fékk heiðursviðurkenningu fyrir framlag sitt sem stjórnarmaður á uppeldissviði og í aðalstjórn til fjölda ára, sem og fyrir myndatöku á leikjum og viðburðum á vegum félagsins. Þannig hefur hún lagt sitt af mörkum til að varðveita sögu ÍA.

Einar og Kristleifur fengu heiðursviðurkenningu fyrir brautryðjendastarf í getraunastarfi ÍA um árabil og að hafa stuðlað að framgangi knattspyrnunnar á Akranesi.

Sigurður Arnar fékk heiðursviðurkenningu fyrir framlag sitt sem stjórnarmaður og formaður ÍA um nokkurra ára skeið. Einnig fyrir myndatöku á leikjum og viðburðum á vegum félagsins og að hafa þannig varðveitt söguna.

 

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Flugslys í Svefneyjum

Flugslys varð í Svefneyjum á Breiðafirði síðdegis síðastliðinn fimmtudag. Flugvél í flugtaki fékk á sig vindhviðu undir vænginn með þeim... Lesa meira