Öldungaráð stofnað á Akranesi

Velferðar- og mannréttindaráð Akraneskaupstaðar samþykkti á síðasta fundi að óska eftir tilnefningum í öldungaráð bæjarins. Er óskað eftir tilnefningu þriggja fulltrúa frá Félagi eldri borgara á Akranesi og nágrenni og einum fulltrúa frá heilsugæslu Heilbrigðisstofnunar Vesturlands. Bæjarstjórn mun tilnefna þrjá fulltrúa í öldungaráðið. „Velferðar- og mannréttindaráð leggur áherslu á að við skipun í ráðið verði gætt að kynjahlutföllum og aldursdreifingu eins og segir í samþykkt fyrir öldungaráð,“ segir í fundargerð. Stofnun öldungaráðs er til komin vegna breytinga á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga sem tóku gildi 1. október síðastliðinn. Þar segir m.a. til um að öldungaráð taki við því hlutverki sem þjónustuhópum aldraðra hefur hingað til verið falið að sinna. Gert er ráð fyrir öldungaráði í hverju sveitarfélagi. Er þeim fyrst og fremst ætlað að vera formlegur samráðsvettvangur við notendur um öldrunarþjónustu. Skipa skal ráðið að loknum sveitarstjórnarkosningum. Í því eiga að sitja að lágmarki þrír fulltrúar kosnir af sveitarstjórn, þrír tilnefndir af félagi eldri borgara og einn fulltrúi heilsugæslunnar. Sveitarstjórnir hafa í hendi sér hve margir sitja í ráðinu hverju sinni umfram lögbundið lágmark.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Flugslys í Svefneyjum

Flugslys varð í Svefneyjum á Breiðafirði síðdegis síðastliðinn fimmtudag. Flugvél í flugtaki fékk á sig vindhviðu undir vænginn með þeim... Lesa meira