Það var Sigrún Magnúsdóttir, þáverandi umhverfisráðherra (t.h.), sem tók fyrstu skóflustunguna að nýrri þjóðgarðsmiðstöð á Hellissandi árið 2016. Naut hún liðsinnis Sædísar Heiðarsdóttur við moksturinn. Ljósm. úr safni/ af.

Jarðvinna við þjóðgarðsmiðstöð boðin út

Framkvæmdasýsla ríkisins hefur kynnt opið útboð vegna jarðvinnu og girðingarvinnu á verksvæði þjóðgarðsmiðstöðvar á Hellissandi. Eins og áður hefur verið rakið í Skessuhorni á málið sér nokkuð langa sögu. Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull var stofnaður 2001 og árið 2006 var efnt til hönnunarsamkeppni um þjóðgarðsmiðstöðina. Áform um miðstöðina voru sett á ís í kjölfar bankahrunsins 2008. Fyrsta skóflustungan að þjóðgarðsmiðstöðinni var síðan ekki tekin fyrr en árið 2016. „Það hefur því verið stefnt að opnun þjóðgarðsmiðstöðvar lengi og er vonast til að nú verði skrefið stigið til fulls. Það yrði lyftistöng fyrir ferðaþjónustu á svæðinu og gerði þjóðgarðinn betur í stakk búinn að taka á móti ferðamönnum sem heimsækja svæðið allt árið um kring,“ segir í frétt á vef Snæfellsbæjar.

Útboðið sem nú hefur verið kynnt nær sem fyrr segir til jarðvinnu og vinnu við að girða af verksvæði fyrir fyrirhugað hús þjóðgarðsmiðstöðvarinnar. Um er að ræða gröft fyrir hús, bílaplani, lögnum og fyllingu undir sökkla, auk burðarlags undir bílastæði á lóð. Gert er ráð fyrir því að framkvæmdir geti hafist í byrjun mars og að þeim verði lokið um miðjan maímánuð næstkomandi.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Flugslys í Svefneyjum

Flugslys varð í Svefneyjum á Breiðafirði síðdegis síðastliðinn fimmtudag. Flugvél í flugtaki fékk á sig vindhviðu undir vænginn með þeim... Lesa meira