Sigurjón Inga Úlfarsson og Hilmar Ólafsson eigendur Galito hér með Guðmund Sigvaldason framkvæmdastjóra Leynis á milli sín. Ljósm. Leynir.

Galito tekur að sér veitingarekstur í nýrri frístundamiðstöð

Frá því er greint á vef Golfklúbbsins Leynis á Akranesi að tekist hafi samkomulag við veitingastaðinn Galito um að taka við rekstri veitinga og þjónustu í nýrri frístundamiðstöð sem nú er risin við Garðavöll. „Galito mun reka starfsemina í frístundamiðstöðinni samhliða rekstri veitingastaðar við Stillholt og mun opna formlega þegar Garðavöllur opnar golfvöllinn í vor, sem má áætla að verði um mánaðamótin apríl og maí.“

Þá segir að golfklúbburinn og Galito hafa undanfarin ár átt farsælt og gott samstarf er varðar veislur og þjónustu við Garðavöll. „Það er mikil ánægja innan stjórnar golfklúbbsins með þennan samning og væntanlegt samstarf um rekstur frístundamiðstöðvar og mikil tækifæri munu felast með nýju húsi og þeirri aðstöðu sem það hefur upp á að bjóða,“ að sögn Guðmundar Sigvaldasonar framkvæmdastjóra Leynis.

Hilmar Ólafsson veitingamaður á Galito segir að þessi aðstaða og rekstur í frístundamiðstöðinni muni falla vel saman með rekstri veitingastaðarins Galito en þjónusta við hópa, fyrirtæki og aðra gesti Garðavallar verður aukin til muna með þessu samstarfi við Leyni. Veislusalur frístundamiðstöðvarinnar tekur allt að 200 manns í sæti og býður upp á mikla möguleika er varðar viðburði, námskeið, ráðstefnur, brúðkaup, afmæli, fermingar auk fleiri mannfagnaða.

Í frétt Leynis segir jafnframt að framkvæmdir ganga vel á Garðavelli en nú er rétt ár síðan skóflustunga var tekin að húsinu. Golfklúbburinn flutti starfsemi sína inn í hluta hússins um miðjan desember þegar skrifstofuhluti og inniæfingaaðstaða var tekinn í notkun. Áætlað er að framkvæmdum við húsið verði lokið í byrjun apríl og að húsið verði formlega tekið í notkun í framhaldinu. Mikið af bókunum í veislusalinn eru nú þegar staðfestar og skemmtilegir tímar framundan á Garðavelli, segir í frétt Leynis.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Flugslys í Svefneyjum

Flugslys varð í Svefneyjum á Breiðafirði síðdegis síðastliðinn fimmtudag. Flugvél í flugtaki fékk á sig vindhviðu undir vænginn með þeim... Lesa meira