Páll Kr Pálsson og Ólafur Sveinsson.

Stefnt að bættum rekstri og betri afkomu vestlenskra fyrirtækja

Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi hafa ákveðið að ráðast í verkefni á næstunni sem felst í að bjóða starfandi fyrirtækjum í landshlutanum aðstoð við að meta hvar tækifæri þeirra liggja til að bæra árangur sinn í rekstrinum. Samið hefur verið við ráðgjafafyrirtækið Áttir ehf. um að vinna að verkefninu undir stjórn SSV. „Starfandi fyrirtæki eru burðarás verðmætasköpunar í samfélaginu. Það skiptir því miklu máli að þau séu stöðugt að nýta öll möguleg tækifæri til að bæta rekstur sinn,“ segir Páll Kr Pálsson hagverkfræðingur hjá Áttum ehf.

Ólafur Sveinsson er forstöðumaður Atvinnuráðgjafar Vesturlands. Hann segir að fyrirkomulag verkefnisins verði þannig að haldnir verða kynningarfundir á öllum þéttbýlisstöðum á Vesturlandi, þ.e. Akranesi, Borgarnesi, Búðardal, Stykkishólmi, Grundarfirði og Snæfellsbæ. „Þar ætlum við að kynna verkefnið og fyrirtækjum verður boðið að fá ráðgjafa frá Áttum ehf. í heimsókn til að meta tækifæri viðkomandi fyrirtækis til að bæta rekstur sinn og gera verkefnistillögu. Við áætlum að fjöldi beiðna á öllu svæðinu verði þetta tólf til átján fyrirtæki,“ segir Ólafur. Athygli er vakin á því að fyrstu kynningarfundirnir verða í þessari viku, sjá auglýsingu í síðasta Skessuhorni.

Eftir að fyrirtækin hafa sótt um aðstoð munu ráðgjafar heimsækja fyrirtækin og gera tillögu um verkefni og tilboð í vinnslu þeirra. Fyrirtækin verða rukkuð um 25 þúsund krónur fyrir tilboðið, sem þau fá endurgreidd ef þau láta vinna verkefnið. Ákveði fyrirtæki að láta vinna hjá sér verkefni, þá gerir fyrirtækið samning við Áttir ehf. þar um og greiðir fyrir vinnuna.

Aðkoma SSV verður með þeim hætti að samtökin greiða fyrir fundi og ferðkostnað til kynningar á verkefninu og kostnað vegna heimsóknar og tilboðsgerðar um verkefni í fyrirtækjum sem þess óska.

„Lögð verður áhersla á aðgerðir sem skila hverju þátttökufyrirtæki sýnilegum árangri þegar á árinu 2019. Meginsvið aðgerða verða lækkun kostnaðar, fjárhagsleg endurskipulagning, söluaukning, útfærsla nýrra afurða (vörur og/eða þjónusta) og gerð rekstraráætlunar til næstu þriggja ára,“ segja þeir Páll Kr Pálsson og Ólafur Sveinsson.

Nánar má lesa um áhersluþætti í ráðgjöfinni, á hverju þessara meginsviða, á vef Átta ehf; www.attir.is. Þá vísast í auglýsingu í Skessuhorni í síðustu viku um kynningarfundina sem framundan eru.

Líkar þetta

Fleiri fréttir