Kátir krakkar í klifri á Akraseli. Myndin tengist efni fréttarinnar ekki með beinum hætti. Ljósm. úr safni.

Nemendur á Akraseli í þriðja sæti í ritlistarkeppni

Kennarasamband Íslands efndi til ritlistarsamkeppnarinnar Að yrkja á íslensku, í tilefni af Degi leikskólans 6. febrúar. Þátttaka var afar góð og bárust vel á annað hundrað ljóð, sögur, örsögur og textar. Dómnefnd sá um að velja bestu ljóðin. Hana skipuðu Haraldur Freyr Gíslason, rithöfundur og formaður Félags leikskólakennara, Steinunn Inga Óttarsdóttir, gagnrýnandi og sérfræðingur hjá FL og Sigrún Birna Björnsdóttir, formaður Samtaka móðurmálskennara og sérfræðingur í jafnréttis- og vinnuumhverfismálum hjá KÍ.

Fór svo að þriðju verðlaun keppninnar hlutu þau Maceij, Indiana Alba, Katla Sól, Helga Katrín og Arnlaug Fanney, nemendur á leikskólanum Akraseli á Akranesi. Verðlaunin hlutu þau fyrir ljóðið Ævintýri, sem lesa má hér að neðan:

Ævintýri

Það er gaman að fá kakó og kex.

Það er gaman að gefa fuglunum og skauta á klaka

og finna prik og köngla,

finna tyggjó og rusl.

Finna eggjaskurn.

Finna stór prik.

Það er gaman að gefa fuglunum brauð og eiga fugla.

Fullt af fuglum.

Kannski getum við klifrað í trénu?

 

„Mjög glaðlegt og leitandi ljóð með æsispennandi endi sem skilur lesandann eftir hugsi og skapar eftirvæntingu um að enn meira fjör sé í vændum,“ segir í umsögn dómnefndar um ljóð krakkanna á Akraseli. Sigurvegari keppninnar var Bjarkey Sigurðardóttir á leikskólanum Jötunheimum á Selfossi, en hún orti ljóðið Sumar. Hersteinn Snorri, leikskólanum Ásgarði í Húnaþingi, hafnaði í öðru sæti fyrir ljóðið Skipstjórinn. Áhugasömum er bent á að ljóðin má lesa á heimasíðu Kennarasambands Íslands.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Flugslys í Svefneyjum

Flugslys varð í Svefneyjum á Breiðafirði síðdegis síðastliðinn fimmtudag. Flugvél í flugtaki fékk á sig vindhviðu undir vænginn með þeim... Lesa meira