Shequila Joseph átti prýðilegan leik fyrir Skallagrím en það dugði skammt gegn sterku liði KR. Ljósm. úr safni/ Skallagrímur.

Slakur þriðji leikhluti reyndist dýrkeptur

Skallagrímskonur töpuðu gegn KR á útivelli, 80-64, þegar liðin mættust í Domino‘s deild kvenna á laugardaginn. Fyrri hálfleikur var heilt yfir nokkuð jafn en slakur þriðji leikhluti Skallagríms varð til þess að KR-ingar fóru með sigur af hólmi.

Borgnesingar höfðu heldur yfirhöndina í upphafi leiks og höfðu fjögurra stiga forskot um miðjan fyrsta leikhluta, 10-14. KR-ingar jöfnuðu, tóku forystuna og leiddu með fjórum stigum eftir upphafsfjórðunginn, 22-18. Skallagrímskonur minnkuðu muninn í eitt stig snemma í öðrum leikhluta en KR jók forystuna að nýju og hafði ellefu stiga forskot í hálfleik, 43-32.

KR-ingar voru mun sterkari í þriðja í þriðja leikhluta og bættu jafnt og þétt við forskot sitt. Skallagrímskonur náðu sér ekki á strik, skoruðu aðeins átta stig allan fjórðunginn á móti 24 stigum KR-inga. Staðan fyrir lokafjórðunginn var 67-40 og úrslit leiksins ráðin. Skallagrímskonur náðu aðeins að laga stöðuna í lokafjórðungnum en máttu að lokum sætta sig við 16 stiga tap, 80-64.

Shequila Joseph var atkvæðamest í liði Skallagríms með 21 stig og 13 fráköst, Brianna Banks skoraði 21 stig, tók sex fráköst og gaf níu stoðsendingar og Ines Kerin skoraði 13 stig og gaf fimm stoðsendingar.

Kiana Johnson skoraði 23 stig, tók tíu fráköst og gaf átta stoðsendingar í liði KR. Orla O‘Reilly skoraði 22 stig og tók ellefu fráköst og Ástrós Lena Ægisdóttir var með ellefu stig.

Skallagrímskonur hafa tólf stig í sjötta sæti deildarinnar, jafn mörg stig og Haukar í sætinu fyrir neðan. Þessi tvö lið mætast í fallbaráttuslag í Borgarnesi miðvikudaginn 20. febrúar næstkomandi.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Gestur úr Elkem til Veitna

Stjórn Veitna ohf. hefur ráðið Gest Pétursson forstjóra Elkem Ísland sem framkvæmdastjóra fyrirtækisins. Veitur eru stærsta veitufyrirtæki landsins og dótturfyrirtæki... Lesa meira