Borgarbyggð ekki bótaskyld vegna nýframkvæmda við Borgarbraut

Í Héraðsdómi Vesturlands í morgun var dæmt í máli sem Hús og lóðir ehf. höfðaði á hendur sveitarfélaginu Borgarbyggð. Krafa stefnanda var að viðurkennd yrði með dómi bótaskylda sveitarfélagsins vegna tjóns sem hlaust af byggingarleyfum sem Borgarbyggð gaf út til Húss og lóða ehf. fyrir nýbyggingar að Borgarbraut 57 og 59 í Borgarnesi 16. september 2016 og fyrir nýbyggingu að Borgarbraut 59 hinn 5. október 2016, en sem úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála felldi úr gildi með úrskurðum undir lok þess árs. Úrskurðirnir höfðu í för með sér tafir á byggingaframkvæmdum Húss og lóða og verulegan fjármagnskostnað vegna þeirra. Jafnframt krafðist stefnandi að málskostnaður yrði greiddur af stefnda. Borgabyggð krafðist sýknu. Í dómsorðum segir: „Vísað er frá dómi kröfu stefnanda, Húss og lóða ehf., um að viðurkennd verði bótaskylda stefnda, Borgarbyggðar, gagnvart stefnanda vegna tjóns sem hlaust af byggingarleyfi sem stefndi gaf út hinn 16. september 2016 fyrir nýbyggingum að Borgabraut 57 og 59, Borgarbyggð. Stefndi er að öðru leyti sýkn af kröfum stefnanda í máli þessu,“ segir í dómsorðum Ásgeirs Magnússonar dómara við Héraðsdóm Vesturlands. Málskostnaður milli aðila var jafnframt felldur niður.

Líkar þetta

Fleiri fréttir