Bankahúsið í Búðardal öðlast brátt nýtt líf

Húsnæði sem áður hýsti útibú Arion banka í Búðardal hefur verið til sölu í nokkurn tíma. Félagið D9 ehf. sem er í eigu Dalamannsins Leifs Steins Elíssonar og eiginkonu hans, hefur nú fest kaup á því. Þar er nú unnið að gerð íbúðarherbergja á efri hæð, en enn er ekki fullráðið hvað verður á jarðhæð. „Við erum að breyta efri hæðinni í fimm stök herbergi til útleigu, hvort heldur sem er til langtíma-  eða skammtímaleigu,“ segir Leifur Steinn í samtali við Skessuhorn. „Áætlað er að herbergin verði tilbúin í apríl. Tvö, og jafnvel þrjú, herbergjanna verða fullbúin með sturtu og salerni en hin herbergin verða hvert um sig með handlaug, en salerni og sturta verður sameiginleg,“ segir hann.

Spurður hvað standi til að gera á neðri hæð hússins svarar hann því til að það sé enn óráðið en þó séu uppi ýmsar hugmyndir. „Í ljósi þess að ég er fæddur og uppalinn Dalamaður vildi ég að eitthvað yrði í húsinu sem tengist Dölunum. Afi minn var Aðalsteinn Baldvinsson kaupmaður í Brautarholti, en hann hafði tekið við versluninni af Birni Jónssyni tengdaföður sínum, sem var smiður og byggði verslunina á sínum tíma. Nú eru liðlega 100 ár síðan og innréttingarnar eru friðaðar. En þar sem húsið í Brautarholti er orðið nokkuð gamalt og lélegt kviknaði sú hugmynd í samtölum við eigendur þess hvort ekki væri hægt að bjarga innréttingunum og koma þeim haganlega fyrir í bankahúsinu í Búðardal, annað hvort í heilu lagi eða að hluta,“ útskýrir Leifur Steinn. „Þar væri svo gaman að vera með verslun með vörur úr héraði, eins og kannski osta, önnur matvæli, handverk og fleira. Með þessu kæmi vel til greina að vera með veitingarekstur. En þetta kostar allt talverða peninga og það stendur ekki til að fara of geyst í sakirnar,“ bætir hann við.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Gestur úr Elkem til Veitna

Stjórn Veitna ohf. hefur ráðið Gest Pétursson forstjóra Elkem Ísland sem framkvæmdastjóra fyrirtækisins. Veitur eru stærsta veitufyrirtæki landsins og dótturfyrirtæki... Lesa meira