„Hurðafarsi eins og þeir gerast bestir“

Leikdeild Umf. Skallagríms ætlar að færa Fullkomið brúðkaup á fjalirnar í vetur. Sýnt verður í félagsheimilinu Lyngbrekku og frumsýning er föstudagskvöldið 22. febrúar næstkomandi. Fullkomið brúðkaup er eftir Robin Hawdon og þýðandi er Örn Árnason. Leikstjóri er Guðmundur Lúðvík Þorvaldsson. „Fullkomið brúðkaup er hurðafarsi eins og þeir gerast bestir og býður upp á að það verði hlegið allan tímann. Okkur langaði að setja upp fyndna og skemmtilega sýningu og Fullkomið brúðkaup er hvort tveggja,“ segir Svanhvít Pétursdóttir í samtali við Skessuhorn. Hún er formaður leikdeildar Umf. Skallagríms og fer jafnframt með hlutverk brúðarinnar Rakelar í Fullkomnu brúðkaupi. „Verkið gerist á sveitahóteli þar sem ýmislegt kemur upp á. Misskilningurinn er allsráðandi, margir brandararnir tvíræðir og þetta verður allt mjög fyndið og skemmtilegt,“ segir hún og er bjartsýn á góðar viðtökur. „Ég vona að við náum að sýna verkið tíu til fimmtán sinnum og reikna með að það verði mikið hlegið og allar sýningarnar mjög skemmtilegar,“ segir hún.

Sex leikarar fara með hlutverk í Fullkomnu brúðkaupi. Kvenhlutverkin eru þrjú og karlhlutverkin jafn mörg. Þegar allt er talið segir Svanhvít að milli tíu og fimmtán mans muni koma að sýningunni hverju sinni þegar allt er talið. Leikendur hafa æft stíft frá því nýja árið gekk í garð. „Þetta er allt mjög skipulega unnið. Leikstjórinn er vel skipulagður og drífandi og það er mjög gott að vinna með honum. Það var sett í hlutverk fyrir jól og þá byrjuðum við að lesa saman. Æfingar fóru síðan á fullt eftir áramót og við höfum æft nánast á hverju kvöldi allt þetta ár. Það hefur gengið mjög vel að æfa og við erum komin með verkið upp á svið,“ segir hún. „ Núna eru allir um það bil komnir með textann sinn upp á tíu og við erum á lokasprettinum hvað varðar búninga. Ég reikna síðan með að við verðum byrjuð að renna verkinu í heild sinni á æfingum allavega viku fyrir frumsýningu. Þetta er allt að slípast saman jafnt og þétt og vel tímanlega fyrir frumsýninguna,“ segir Svanhvít Pétursdóttir að endingu.

Frumsýning leikdeildar Umf. Skallagríms á Fullkomnu brúðkaupi verður sem fyrr segir í Lyngbrekku að kvöldi föstudagsins 22. febrúar. Miðasala er hjá leikdeildinni í síma 846-2293.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Flugslys í Svefneyjum

Flugslys varð í Svefneyjum á Breiðafirði síðdegis síðastliðinn fimmtudag. Flugvél í flugtaki fékk á sig vindhviðu undir vænginn með þeim... Lesa meira