Lýsa áhyggjum af stöðu og þróun leikskólamála á Akranesi

Stjórnendur, kennarar og starfsfólk leikskólanna á Akranesi hafa sent bæjaryfirvöldum ályktun þar sem þeir lýsa yfir áhyggjum af stöðu og þróun leikskólamála í bænum. Jafnframt er kallað eftir samtali við bæjaryfirvöld þar um. Ályktunin var samþykkt á baráttufundi sem haldinn var á Akranesi í tilefni af Degi leikskólans í gær. Fundinn sóttu milli 70 og 80 stjórnendur, kennarar og starfsfólk úr leikskólunum á Akranesi. Ályktunin hefur verið send oddvitum bæjarstjórnarflokkanna, bæjarstjóra, sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs sem og formanni skóla- og frístundaráðs.

Í ályktuninni er bent á að Akranes sé vaxandi samfélag og væntingar uppi um að fjölskyldufólk flytjist til bæjarins en þá séu góðir skólar og þjónusta þeirra lykilþáttur við val á búsetu. „Frá árinu 2008 hefur engin uppbygging verið í leikskólamálum á Akranesi eða frá því að leikskólinn Akrasel var opnaður í ágúst 2008. Síðan þá hefur þjónustustig leikskólanna aukist og breyst m.a. með inntöku yngri barna,“ segir í ályktuninni. „Í dag er leikrými barna á leikskólum of lítið og hefur það áhrif á tengslamyndun barna, málþroska, kvíða, einbeitingu og gæði samskipta. Lítið rými og þrengsli, hávaði, erill og álag í daglegu lífi leikskólabarna og leikskólafólk á ekki að vera eðlilegur hluti starfsumhverfis,“ segir í ályktuninni. „Skipuleggja þarf leikskólaumhverfið út frá þörfum þeirra sem þar starfa. Fækka þarf börnum á deildum, endurskoða fermetraviðmið sem ræður fjölda barna og fara í breytingar á eldra húsnæði og aðlaga það breyttum forsendum skólastarfs. Bygging nýs leikskóla er orðin tímabær.“

Kallað er eftir því að þátttaka Akraneskaupstaðar í menntun leikskólakennara verði endurskoðuðu á ný, þar sem viðmið laga um hlutfall leikskólakennara sé ekki uppfyllt í dag. Mikilvægt sé að allir leggist á eitt til að viðhalda háu menntunarhlutfalli í leikskólunum, ásamt því að styðja við aðrar námsbrautir sem nýtast starfsfólki leikskólanna. „Í dag stígum við fyrsta skrefið í átt að óskum um breytingar. Við ætlum að standa vörð um starfsumhverfi barna og starfsfólks og réttum þennan kyndil yfir til bæjaryfirvalda og óskum eftir viðbrögðum hið fyrsta. Við erum fyrst og síðast samherjar og viljum öll að leikskólar á Akranesi séu aðlaðandi og góðir vinnustaðir fyrir börn og starfsfólk, ávallt í fremstu röð í gæðum og aðbúnaði.“’

 

Líkar þetta

Fleiri fréttir