Eyjólfur Ásberg Halldórsson fer frá varnarmönnum Hauka í leiknum í gær. Ljósm. Skallagrímur.

Áræðni og yfirvegun á lokamínútum skilaði Borgnesingum sigrinum

Skallagrímur sigraði Hauka með einu stigi, 80-79, þegar liðin mættust í Domino‘s deild karla í körfuknattleik í gær. Leikið var í Borgarnesi og var þetta annar sigur Skallagríms í vikunni.

Haukar höfðu yfirhöndina í upphafi leiks en Borgnesingar voru aldrei langt undan. Þeir komu sér þétt upp að hlið gestanna seint í fyrsta leikhluta og komust yfir áður en hann var úti, 22-21. Mikið jafnræði var með liðunum í öðrum fjórðungi. Skallagrímsmenn leiddu mest með fimm stigum en Haukar fylgdu þeim eins og skugginn. Borgnesingar létu forskotið þó aldrei af hendi og voru þremur stigum yfir í hléinu, 44-41.

Skallagrímsmenn náðu góðum kafla snemma í þriðja leikhluta og níu stiga forskoti í stöðunni 60-51. Haukar svöruðu fyrir sig og jöfnuðu áður en leikhlutinn var úti í 66-66. Þeir skoruðu síðan fyrstu sex stig lokafjórðungsins en Skallagrímsmenn komu til baka og jöfnuðu í 74-74 þegar fimm mínútur voru eftir. Liðin fylgdust að næstu mínúturnar og leikurinn var hnífjafn. Borgnesingar voru bæði áræðnir og yfirvegaðir í aðgerðum sínum á lokaandartökum leiksins. Þrátt fyrir að brenna af tveimur vítum síðustu 30 sekúndurnar komust þeir fjórum stigum yfir á lokaandartökum leiksins. Það kom því ekki að sök þegar Haukar settu þriggja stiga skot með tvær sekúndur á klukkunni. Skallagrímur sigraði með einu stigi, 80-79.

Domagoj Samac var atkvæðamestur í liði Skallagríms með 21 stig og tíu fráköst. Aundre Jackson skoraði 14 stig og tók tíu fráköst, Eyjólfur Ásberg Halldórsson var með 13 stig og sjö stoðsendingar, Matej Buovac skoraði tólf stig og tók sex fráköst og Björgvin Hafþór Ríkharðsson var með ellefu stig, fimm fráköst og sex stoðsendingar.

Hilmar Smári Henningsson var öflugastur gestanna með 21 stig, fimm fráköst og sex stoðsendingar. Haukur Óskarsson skoraði 16 stig og gaf fimm stoðsendingar og Russel Woods jr. var með 14 stig og átta fráköst.

Sigur Skallagríms var annar sigurleikurinn Borgnesinga í vikunni. Fyrir vikið eru þeir búnir að galopna botnbaráttuna deildarinnar. Þeir hafa átta stig í ellefta sæti, tveimur stigum minna en Valur í sætinu fyrir ofan. Næst leikur Skallagrímur á fimmtudaginn, 7. febrúar, þegar liðið mætir Keflvíkingum á útivelli.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Flugslys í Svefneyjum

Flugslys varð í Svefneyjum á Breiðafirði síðdegis síðastliðinn fimmtudag. Flugvél í flugtaki fékk á sig vindhviðu undir vænginn með þeim... Lesa meira