Domagoj Samac átti prýðisleik þegar Skallagrímur féll úr leik í bikarnum. Ljósm. Skallagrímur.

Skallagrímsmenn úr leik í bikarnum

Leikið var í átta liða úrslitum Geysisbikars karla í körfuknattleik í gærkvöldi. Skallagrímsmenn heimsóttu ÍR og þurftu að játa sig sigraða eftir æsispennandi leik, 86-79. Borgnesingar hafa því lokið þátttöku sinni í bikarnum í þetta skiptið.

Jafnræði var með liðunum fyrstu mínúturnar en þá náðu heimamenn yfirhöndinni og leiddu með 13 stigum eftir upphafsfjórðunginn, 30-17. Skallagrímsmenn minnkuðu muninn jafnt og þétt í öðrum leikhluta. Þegar flautað var til hálfleiks voru þeir búnir að koma forystu ÍR niður í tvö stig, 45-43.

Skallagrímur komst yfir í upphafi síðari hálfleiks en heimamenn jöfnuðu. Mikil spenna færðist í leikinn og liðin skiptust á að leiða. ÍR hafði þriggja stiga forskot fyrir lokafjórðunginn, 65-62. Borgnesingar jöfnuðu snemma í fjórða leikhluta en ÍR-ingar komust yfir að nýju og létu forystuna aldrei af hendi. Þeir sigruðu að lokum með 86 stigum gegn 79.

Aundre Jackson skoraði 20 stig og tók sjö fráköst fyrir Skallagrím. Domagoj Samac var með 20 stig einnig og sex fráköst og Matej Buovac skoraði 17 stig og tók fimm fráköst.

Kevin Capers var atkvæðamestur í liði heimamanna með 27 stig, níu fráköst g sjö stoðsendingar. Sigurður Gunnar Þorsteinsson skoraði 21 stig og tók ellefu fráköst, Gerald Robinsson var með 15 stig og tíu fráköst og Sæþór Elmar Kristjánsson skoraði tólf og tók sjö fráköst.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Flugslys í Svefneyjum

Flugslys varð í Svefneyjum á Breiðafirði síðdegis síðastliðinn fimmtudag. Flugvél í flugtaki fékk á sig vindhviðu undir vænginn með þeim... Lesa meira