Ljósm. úr safni/ sá.

Tap gegn toppliðinu

Snæfellingar lágu gegn toppliði Þórs Ak., 97-62, þegar liðin mættust í 1. deild karla í körfuknattleik á föstudagskvöld. Leikið var á Akureyri.

Heimamenn byrjuðu af krafti og komust í 11-2 áður en upphafsfjórðungurinn var hálfnaður. En þá tóku Snæfellingar við sér, minnkuðu muninn í þrjú stig og höfðu í fullu tré við toppliðið það sem eftir lifði leikhlutans. Staðan var 17-14 eftir fyrsta leikhluta. Heimamenn bættu aðeins við forskoti í upphafi annars fjórðungs og Snæfellingar máttu hafa sig alla við að halda í við þá. Heimamenn tóku góðan sprett undir lok fyrri hálfleiks og leiddu með 13 stigum í hléinu, 45-32.

Síðari hálfleikurinn var algjör einstefna þar sem Þórsarar réðu lögum og lofum. Þeir juku forskot sitt jafnt og þétt í þriðja leikhluta og leiddu með 28 stigum fyrir lokafjórðunginn, 75-47. Þeir bættu síðan enn við í fjórða leikhluta og sigruðu að lokum stórt, 97-62.

Dominykas Zupkauskas var atkvæðamestur í liði Snæfells með 14 stig, sex fráköst og fimm stoðsendingar en aðrir leikmenn náðu ekki tveggja stafa tölu á stigatöflunni.

Pálmi Geir Jónsson skoraði 20 fyrir heimamenn og tók sjö fráköst, Damir Mijic var með 19 stig og níu fráköst, Júlíus Orri Ágústsson skoraði 14 og tók fimm fráköst og Larry Thomas var með tólf stig, níu fráköst og átta stoðsendingar.

Snæfellingar sitja á botni deildarinnar, án stiga eftir 13 leiki, tveimur stigum á eftir Sindra í sætinu fyrir ofan, en þessi tvö lið mætast einmitt í næstu umferð deildarinnar. Leikur Snæfells og Sindra fer fram í Stykkishólmi föstudaginn 25. janúar næstkomandi.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Flugslys í Svefneyjum

Flugslys varð í Svefneyjum á Breiðafirði síðdegis síðastliðinn fimmtudag. Flugvél í flugtaki fékk á sig vindhviðu undir vænginn með þeim... Lesa meira