Gunnhildur Gunnarsdóttir á fleygiferð í átta liða úrslitum bikarsins þegar Snæfell sigraði Hauka. Ljósm. sá.

Snæfell áfram í bikarnum en Skallagrímur úr leik

Leikið var í átta liða úrslitum Geysisbikars kvenna í körfuknattleik í gær. Snæfell tryggði sér farseðilinn í undanúrslit með sigri á Haukum í hörkuleik í Stykkishólmi en Skallagrímur hefur lokið þátttöku sinni eftir stórt tap gegn Stjörnunni á útivelli.

 

Fundu sig ekki í sókninni

Fyrsti leikur dagsins var viðureign Skallagríms og Stjörnunnar. Borgnesingar fundu aldrei almennilega taktinn í sókninni og töpuðu að lokum stórt, 71-49. Skallagrímskonur byrjuðu betur en Stjarnan náði undirtökunum snemma leiks og leiddi með sex stigum eftir fyrsta leikhluta, 20-14. Skallagrímskonur byrjuðu annan fjórðunginn illa og heimaliðið jók forskot sitt. Borgnesingar komu til baka og átta stigum munaði í hálfleik, 37-29.

Skallagrímskonur mættu ákveðnar til síðari hálfleiks og fylgdu Stjörnunni hvert fótmál. En um miðjan þriðja leikhluta tók Stjarnan góðan sprett sem skilaði þeim 17 stiga forystu fyrir lokafjórðunginn, 56-39. Þær héldu Skallagrími í skefjum og um það bil sama forskoti það sem eftir lifði leiks og sigruðu að lokum með 22 stigum, 71-49. Skallagrímur hefur þar með lokið þátttöku sinni í bikarkeppninni að þessu sinni.

Brianna Banks skoraði 17 stig og tók sex fráköst fyrir Skallagrím og Shequila Joseph var með 16 stig og 13 fráköst en aðrar komust ekki í tveggja stafa tölu á stigatöflunni.

Danielle Rodriguez var atkvæðamest í liði Stjörnunnar með 20 stig, sex fráköst og níu stoðsendingar og Bríet Sif Hinriksdóttir skoraði 17 stig.

 

Hörkuleikur í Hólminum

Annar leikur dagsins var viðureign Snæfells og Hauka í Stykkishólmi, jafn og spennandi leikur þar sem hart var barist frá fyrstu mínútu. Snæfellskonur voru sterkari undir lokin og tryggðu sér sigurinn með góðum kafla í upphafi fjórða leikhluta, 72-68.

Mikið jafnræði var með liðunum strax í upphafi leiks. Gestirnir höfðu heldur yfirhöndina í fyrsta leikhluta en undir lok hans náði Snæfell góðum spretti og átta stiga forskoti, 26-18. Snæfellskonur voru áfram sterkari framan af þriðja, en þegar nær dró hálfleiknum tóku gestirnir við sér. Með góðum kafla minnkuðu Haukar muninn í þrjú stig áður en flautað var til hálfleiks, 40-37.

Haukar gerðu tvisvar sinnum harða atlögu að forystunni í þriðja leikhluta. Snæfellskonur stóðu hana af sér í bæði skiptin og leiddu með tveimur stigum fyrir lokafjórðunginn, 53-51. Snæfell náði síðan frábærum 12-0 kafla í fjórða leikhluta og breyttu stöðunni í 65-51. En fjörið var ekki búið því Haukar tóku mikinn. Haukar lögðu allt í sölurnar og tókst af mikilli baráttu að minnka muninn í fjögur stig undir lok leiks. En nær komust þær ekki og Snæfell fór með sigur af hólmi, 72-68.

Kristen McCarthy var atkvæðamest í liði Snæfells með 33 stig og níu fráköst og Gunnhildur Gunnarsdóttir skoraði 19 stig og tók átta fráköst.

Lele Hardy skoraði 16 stig og tók 18 fráköst í liði gestanna, Klaziena Guijt var með 13 stig og fimm stoðsendingar og Þóra Kristín Jónsdóttir skoraði tíu stig og tók sjö fráköst.

Með sigrinum tryggðu Snæfellskour sér farseðilinn í undanúrslit bikarsins, ásamt Val, Breiðabliki og Stjörnunni. Undanúrslitaleikirnir fara báðir fram í Laugardalshöllinni miðvikudaginn 13. febrúar næstkomandi.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Flugslys í Svefneyjum

Flugslys varð í Svefneyjum á Breiðafirði síðdegis síðastliðinn fimmtudag. Flugvél í flugtaki fékk á sig vindhviðu undir vænginn með þeim... Lesa meira