Sigurreifir Skagamenn eftir leikinn gegn Stál-úlfi. Ljósm. Körfuknattleiksfélag ÍA

Góður sigur ÍA

Skagamenn unnu góðan sigur á Stál-úlfi, 126-109, þegar liðin mættust í elleftu umferð í 2. deildar karla í körfuknattleik. Leikið var á Akranesi í gærkvöldi.

Gestirnir byrjuðu betur, höfðu heldur yfirhöndina framan af fyrsta leikhluta en ÍA var aldrei verið langt undan. Stál-úlfur leiddi með sex stigum eftir upphafsfjórðunginn, 27-33. Skagamenn þjörmuðu að gestunum í öðrum leikhluta og náðu að jafna í 52-52 seint í fyrri hálfleik. Þeir komust síðan yfir með góðum leik og leiddu með fimm stigum í hálfleik, 64-59.

Skagamenn voru áfram sterkari í síðari hálfleik. Þeir náðu góðum kafla um miðjan þriðja leikhluta og leiddu með 21 stigi fyrir lokafjórðunginn, 103-82. Gestirnir voru ákveðnir í fjórða leikhluta og náðu að minnka muninn í átta stig þegar rúmar tvær mínútur voru eftir. Skagamenn áttu hins vegar lokaorðið, skoruðu tíu stig gegn þremur síðustu tvær mínúturnar og sigruðu að lokum með 17 stigum, 126-109.

Chaz Franklin átti stórleik fyrir ÍA, skoraði 37 stig og gaf níu stoðsendingar, Hjalti Ásberg Þorleifsson skoraði 27 stig og tók sjö fráköst, Jerome Cheadle skoraði 22 stig og tók ellefu fráköst í sínum fyrsta leik fyrir Skagamenn, Ragnar Sigurjónsson var með 18 stig og Jón Frímannsson tólf stig og tíu fráköst.

Skagamenn sitja í fjórða sæti deildarinnar með 12 stig, jafn mörg og B-lið KR í sætinu fyrir ofan og Valur B í sætinu fyrir neðan. ÍA leikur næst gegn Reyni S. föstudaginn 25. janúar næstkomandi. Sá leikur fer fram í Sandgerði.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Flugslys í Svefneyjum

Flugslys varð í Svefneyjum á Breiðafirði síðdegis síðastliðinn fimmtudag. Flugvél í flugtaki fékk á sig vindhviðu undir vænginn með þeim... Lesa meira