Fóðrar smáfuglana á gönguferðum sínum

Á þessum tíma árs taka smáfuglar því fagnandi þegar mannfólkið gaukar að þeim fóðri, ekki síst þegar snjór leggst yfir helstu fæðuöflunarstaði þeirra. Smáfuglar sem ekki halda til suðrænna landa að hausti, halda sig gjarnan á sömu slóðum þar sem leita má skjóls og möguleikar eru góðir til fæðuöflunar. Gjarnan hópast þeir svo saman þar sem vel er hlúð að þeim af mannfólkinu. Verða þeir spakir og vingjarnlegir við velunnara sína og um leið augnayndi fyrir þá. Á meðfylgjandi mynd er fóðurtrog sem kona ein á Akranesi kom fyrir í tré við gönguleið sína. Trogið segist konan hafa pantað á Ali og kostaði 1200 krónur. Ríflegt af fóðri kemst í trogið og segist hún þurfa að fylla á það á tveggja til þriggja vikna fresti. Fer það eftir veðri og möguleikum smáfuglanna til annarrar fæðuöflunar. „Þetta er skemmtilegt áhugamál og smám saman byrjar maður að þekkja fuglana sem búa næst fóðrinu. Þeir taka manni fagnandi og jafnvel eins og þeir vilji spjalla,“ segir konan. Skorað er á fólk að gefa smáfuglunum korn eða annað fóður sem til fellur á heimilum, svo sem gamla brauðið, epli eða annað sem hentar. Margir hræra þurrfóðrinu saman við smjör eða tólg, mynda úr því köggla og hengja upp í tré. Leiðirnar til þess eru fjölmargar en allar gera þær gagn.

Gaman er að rifja sögu sem tengist góðmennsku við smáfuglana. Eldri kona, Laufey Þórmundardóttir fyrrum skólastjórafrú í Reykholti, hafði það fyrir fastan lið í tilverunni á sínum efri árum að baka jólakökur á veturna, sérstaklega fyrir smáfuglana. Valdi hún bestu uppskriftina sem hún átti í fórum sínum, fannst þeir virkilega eiga það skilið. Kökurnar bar hún síðan glóðvolgar út í garð og gaf smáfuglunum á bakka þegar snjór tók að hylja jörð. Naut svo þess að horfa á þá út um gluggann. Þessi heiðurskona lést í hárri elli nokkrum dögum fyrir aldamótin, umvafin vinum, enda lýsti góðmennska hennar í garð smáfuglanna ágætlega því viðhorfi sem hún sýndi mönnum jafnt sem málleysingjum.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Flugslys í Svefneyjum

Flugslys varð í Svefneyjum á Breiðafirði síðdegis síðastliðinn fimmtudag. Flugvél í flugtaki fékk á sig vindhviðu undir vænginn með þeim... Lesa meira