
Opið hús í dag vegna skipulagsbreytinga á Akranesi
Opið hús verður á bæjarskrifstofum Akraneskaupstaðar í dag, föstudaginn 18. janúar, milli kl. 12:30 og 17:00. Þar verða kynntar fyrirhugaðar skipulagsbreytingar.
Í fyrsta lagi verður kynnt breyting á deiliskipulagi stofnanareits vegna fyrirhugaðrar hótelbyggingar að Kirkjubraut 39, sem stundum er kölluð Fólksbílastöðin. Breytingin felst í því að nýtingarhlutfall lóðarinnar er hækkað, hámarksfjöldi hæða verður fjórar hæðir í stað þriggja áður og að á lóðinni verði húsnæði fyrir hótel í stað skrifstofu- eða opinberrar byggingar.
Hins vegar verður kynnt aðalskipulag miðbæjarsvæðis. Hún felst í því að veita aukinn sveigjanleika í bílastæðamálum þar sem áform eru um þéttingu byggðar.
Eftir kynninguna verða tillögurnar lagðar fyrir skipulags- og umhverfisráð og síðan bæjarstjórn til frekari afgreiðslu. Ákveði bæjarstjórn að auglýsa skipulagsbreytingarnar mun frestur til að gera formlegar athugasemdir vera að minnsta kosti sex vikur.