Eyjólfur Ásberg Halldórsson og félagar hans í Skallagrími urðu að sætta sig við tap. Ljósm. Skallagrímur.

Leikur Skallagríms hrundi í lokafjórðungnum

Skallagrímur tapaði gegn Stjörnunni, 80-94, þegar liðin mættust í 14. umferð Domino‘s deildar karla í körfuknattleik í gær. Leikið var í Borgarnesi og heimamenn voru mun betri nánast allan leikinn. Þeir misstu hins vegar niður 20 stiga forskot í síðari hálfleik áður en leikur þeirra hrundi í lokafjórðungnum og Stjarnan sigraði.

Skallagrímsmenn byrjuðu leikinn af miklum krafti, leiddu 24-5 þegar fyrsti leikhluti var hálfnaður og gestirnir virkuðu heillum horfnir. Borgnesingar héldu uppteknum hætti og staðan var 31-17 eftir upphafsfjórðunginn. Skallagrímsmenn héldu áfram að spila vel í öðrum leikhluta, nýttu sér slakan varnarleik Stjörnunnar og juku forskot sitt í 20 stig. Borgnesingar létu vel í sér heyra á pöllunum og það var mikill meðbyr með Skallagrímsliðinu sem leiddi 56-36 í hálfleik.

Gestirnir virtust hafa farið vel yfir sín mál í hléinu, því þeir voru mun yfirvegaðri í þriðja leikhluta en áður. Hægt og rólega náðu þeir að minnka muninn en Borgnesingar gáfu þeim ekki færi á að jafna. Skallagrímur leiddi með átta stigum fyrir lokafjórðunginn, 71-63. Það var síðan í fjórða leikhluta að leikur Skallagrímsmanna hrundi. Þeir töpuðu taktinum algerlega í sókninni og skoruðu ekki nema níu stig allan leikhlutann. Gestirnir gengu á lagið og náðu að jafna metin áður en leikhlutinn var hálfnaður. Síðustu mínúturnar átti Stjarnan með húð og hári og liðið sigraði að lokum með 14 stigum, 80-94.

Aundre Jackson var atkvæðamestur í liði Skallagríms með 21 stig,  níu frákösg og sex stoðsendingar. Domagoj Samac skoraði 20 stig og tók átta fráköst, Matej Buovac skoraði 16 stig og Eyjólfur Ásberg Halldórsson var með tólf stig og fimm fráköst.

Brandon Rozzell fór fyrir liði gestanna með 28 stig og sjö stoðsendingar. Hlynur Bæringsson var með 15 stig og 17 fráköst, Antti Kanervo skoraði ellefu og Filip Kramer skoraði tíu og tók sjö fráköst.

Skallagrímur er í ellefta sæti deildarinnar með fjögur stig, fjórum stigum á eftir Val í sætinu fyrir ofan. Næst leikur Skallagrímur gegn ÍR á útivelli, fimmtudaginn 24. janúar næstkomandi.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Flugslys í Svefneyjum

Flugslys varð í Svefneyjum á Breiðafirði síðdegis síðastliðinn fimmtudag. Flugvél í flugtaki fékk á sig vindhviðu undir vænginn með þeim... Lesa meira