Skagamenn fagna marki. Ljósm. úr safni: gbh.

Mikið af mörkum í fyrstu leikjum ársins

Fótbolti.net mótið í knattspyrnu hófst um helgina, en mótið markar upphaf knattspyrnuárs karla og er liður í undirbúningstímabilinu fyrir Íslandsmótið í sumar.

ÍA tók á móti Keflavík í Akraneshöllinni á laugardaginn í A deild mótsins. Skemmst er frá því að segja að Skagamenn höfðu algera yfirburði í leiknum, einkum í fyrri hálfleik. Stefán Teitur Þórðarson, Arnar Már Guðjónsson og Gonzalo Zamorano skoruðu fyrir ÍA áður en flautað var til hálfleiks og staðan orðin 3-0. Einar Logi Einarsson skoraði eina mark síðari hálfleiks og innsiglaði þar með 4-0 sigur ÍA.

Í B deild mótsins mættust Víkingur Ó. og Vestri, en bæði lið leika í riðli 1. Sá leikur fór fram í Akraneshöllinni á föstudaginn. Hákon Ingi Einarsson kom Vestra yfir á 20. mínútu og Vestfirðingar leiddu í hálfleik, 0-1. Bjartur Bjarmi Barkarson jafnaði metin fyrir Ólafsvíkinga á 65. mínútu og fleiri mörk voru ekki skoruð. Lokatölur 1-1.

Káramenn leika í B deild, riðli 2 og mættu Gróttu í Akraneshöllinni á sunnudaginn. Gestirnir fengu óskabyrjun og komust í 0-2 með mörkum frá Kristófer Orra Péturssyni og Pétri Theódóri Árnasyni. En þá var komið að Káramönnum, sem jöfnuðu metin með mörkum frá Alexander Má Þorlákssyni og Aroni Ými Péturssyni og staðan 2-2 í hálfleik. Leikar stóðu jafnir þar til skömmu fyrir leikslok að Pétur Theodór skoraði sitt annað mark og innsiglaði sigur Gróttu, 2-3.

Um helgina hófst sömuleiðis keppni í Faxaflóamóti kvenna, sem er fyrsta mót meistaraflokks á árinu. ÍA mætti FH í Akraneshöllinni og höfðu Skagakonur töluverða yfirburði. Sigrún Eva Sigurðardóttir skoraði snemma fyrir ÍA. Nokkru síðar varð Lovísa María Hermannsdóttir, leikmaður FH, fyrir því óláni að skora sjálfsmark áður en Helena Ósk Hálfdánardóttir minnkaði muninn fyrir gestana. Staðan í hálfleik var 2-1. Ólöf Sigríður Kristinsdóttir og Erla Karitas Jóhannesdóttir skoruðu sitt markið hvor fyrir ÍA í síðari hálfleik og lokatölur því 4-1.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Flugslys í Svefneyjum

Flugslys varð í Svefneyjum á Breiðafirði síðdegis síðastliðinn fimmtudag. Flugvél í flugtaki fékk á sig vindhviðu undir vænginn með þeim... Lesa meira