Áskorun til stjórnvalda vegna niðurskurðar til Hafró

Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi ásamt Sjómannasambandi Íslands, VM – Félagi vélstjóra og málmtæknimanna og Félagi skipstjórnarmanna hafa sent stjórnvöldum áskorun þar sem mótmælt er fyrirhuguðum niðurskurði til reksturs Hafrannsóknastofnunar. „Árangur sá er náðst hefur í fiskveiðistjórnun á Íslandsmiðum grundvallast á rannsóknum. Án þeirra myndu menn renna blint í sjóinn, í bókstaflegri merkingu. Margir stofnar við Ísland eru nýttir á sjálfbæran hátt. Stærri fiskistofnar leiða til þess að hægara verður að veiða fiskinn og veiðarnar verða umhverfisvænni.“ Þá segir að víða um heim líti menn til reynslu Íslendinga af stjórn fiskveiða, sem byggst hefur á vísindalegri nálgun. „Þar hefur Hafrannsóknastofnun verið í forystu- og lykilhlutverki og Íslendingar ættu að vera stoltir af framlagi hennar. Að hlúa að stofnuninni er því bæði nauðsyn og skylda.

Það er óskiljanlegt að stjórnvöld hyggist draga svo máttinn úr stofnuninni að henni verði í raun meinað að sinna þeim grundvallarrannsóknum, sem sjósókn Íslendinga byggist á. Skerðing fjármuna vekur ekki síst furðu í ljósi þess að íslenskur sjávarútvegur í heild sinni greiðir tugi milljarða til hins opinbera á ári hverju. Veiðigjaldið, eitt og sér, nam hátt í 11,5 milljörðum króna í fyrra. Lögum samkvæmt er gjaldinu, meðal annars, ætlað að standa undir kostnaði ríkisins við rannsóknir, stjórn, eftirlit og umsjón með fiskveiðum og fiskvinnslu. Það er miður að löggjafinn fylgi ekki þeirri reglu sem hann sjálfur hefur sett.“

Það er krafa þeirra sem senda áskorunina að stjórnvöld endurskoði hið fyrsta fyrirhugaðan niðurskurð á fjárframlagi til Hafrannsóknastofnunar. „Sú ákvörðum er skammsýni. Það eru miklu meiri heildarhagsmunir fólgnir í því að styðja við og efla rannsóknir en að stefna þeim í voða. Þannig rísum við undir þeirri ábyrgð sem okkur er falin í umgengni við sjóinn.“

Líkar þetta

Fleiri fréttir